Pelabörn innbyrða milljónir örplastagna á dag samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature Food . The Guardian greinir frá.

Vísindamenn komust að því að þær leiðbeiningar sem gefnar eru út til að útbúa mjólkurformúlu í pelum losa milljónir örplastsagna og billjón enn smærri agna út í mjólkina.

Rannsóknarteymið fylgdi alþjóðlegum leiðbeiningum um hvernig eigi að undirbúa mjólkurformúlu í pela og gerði það í tíu mismunandi gerðum af pelum. Leiðbeiningarnar eru þær sömu og gefnar eru upp á vef Landlæknis.

Bæði heita vatnið til sótthreinsunar og skrefið þar sem pelinn er hristur leysti mikið magn af plastögunum úr pelanum. Örplastagnir eru það litlar að ómögulegt er að telja þær en vísindamennirnir gerðu ráð fyrir að um billjón agnir leystust í einum lítra af vökva.

Pelarnir sem voru prófaðar eru úr plastefninu fjölprópýleni en 82 prósent af öllum pelum á markaðinum eru gerðir úr því efni. Fjölprópýlen er eitt mest notaða plastefni í heiminum en það notað í margvíslegum tilgangi eins og t.d. í umbúðum, margnota ílátum og fleira.

Ekki gert til að hræða foreldra

John Boland, prófessor við Trinity College í Dublin á Írlandi sagði að rannsóknarteymið væri í hálfgerðu áfalli hversu mikið af örplastögnum losuðust af ungbarnapelum. „Rannsókn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á síðasta ári áætlaði að fullorðnir myndu neyta á bilinu 300 til 600 örplastsagna á dag - meðalgildi í rannsókninni okkar á pelum var um milljón eða billjón,“ sagði Boland.

Í skýrslu Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar frá ág­úst 2019 kom fram að þrátt fyr­ir að nú­ver­andi upp­lýs­ing­ar væru tak­markaðar, sér­stak­lega fyr­ir mjög smá­ar örplastagn­ir, væru „eng­ar vís­bend­ing­ar sem benda til áhrifa á heilsu manna,“ vegna örplasts í drykkjar­vatni.

Það sama gildir um rannsóknina sem gerð var á plastpelunum, en niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að matarundirbúningur í plastílátum leysi þúsund sinnum fleiri agnir út í mat og drykk en áður var talið..

Boland segir það ekki vera tilgang rannsóknarinnar að hræða foreldra, sérstaklega þar sem ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar um hugsanlegar heilsufarslegar afleiðingar. Það þurfi hins vegar að rannsaka málið ítarlega, sérstaklega hvað varðar ungabörn. Hann segir að margar agnanna skili sér eflaust út úr líkamananum en nú þurfi að rannsaka hversu margar gætu farið inn í blóðrásina og þannig borist til annarra hluta líkamans.

Hægt að draga úr losun plastagna

Rannsóknarteymið hefur einnig búið til leiðbeiningar um hvernig er best að sótthreinsa ílát þannig að plastlosun í matinn verði sem minnst. Boland segist sjálfur vera búinn að losa sig við öll plastílát sem hann notaði og ráðleggur foreldrum að hætta að útbúa mjólkurduft í plastpelum, eða í hið minnsta fylgja nýjum leiðbeiningum sem gæti minnkað losun örplastagna.

Teymið á bak við rannsóknina leggja til auka sótthreinsun á pelunum fyrir notkun sem gæti minnkað verulega hversu mikið af plastögnum komist í mjólkina. Þeir mæla með að sjóða vatn í sér ílati sem ekki er úr plasti, kæla það og nota það til að skola pelann þrisvar sinnum eftir að hann var sótthreinsaður samkvæmt fyrri leiðbeiningum. Einnig að formúlan sé útbúin í íláti sem er ekki úr plasti, kæld og þá loks helt yfir í pelann. Þá bendir teymið á að góður valkostur er að nota glerpela í stað plastpela.