Mat­ís hefur brátt viða­mikla rann­sókn á á­standi sjávar­botnsins undir fisk­eldis­stöðvum. Er þetta gert með há­tækni­búnaði og erfða­fræði­legum að­ferðum til þess að sjá hversu mikil á­hrif líf­rænn úr­gangur hefur á líf­ríkið undir kvíunum.

„Við höfum mikinn á­huga á um­hverfis­málum fisk­eldis og erfða­fræði­legum að­ferðum til að leysa þau,“ segir doktor Davíð Gísla­son, verk­efna­stjóri hjá fyrir­tækinu.

Í hverri kví eru yfir 100 þúsund eldis­fiskar og á hverri stöð eru oft um tíu kvíar. Þetta þýðir að yfir milljón fiskar eru á hverri eldis­stöð en til saman­burðar er heildar­fjöldi villta ís­lenska laxins á bilinu 50 til 60 þúsund fiskar. Eldis­stöðvar eru því mjög ó­náttúru­legt fyrir­bæri og skapa mikið magn líf­ræns úr­gangs. Af þeim sökum þarf að hvíla eldis­svæði á milli eldislota til þess að þau nái að komast aftur í sem eðli­legast á­stand, ekki ó­svipað því þegar bóndi tekur fjós­hauginn og ber á túnin.

Davíð segir að verk­efnið miði að því að geta á ná­kvæman hátt stjórnað hvíldar­tíma. Mikil vinna sé fólgin í að safna sýnum og greina dýra­tegundir til að leggja mat á líf­fræði­lega fjöl­breytni. Slík vinna hafi því eðli­lega verið bæði tíma- og mann­afla­frek. „Við ætlum að ein­falda ferlið með erfða­tækni,“ segir hann.

Mat­ís fékk styrk úr Tækni­þróunar­sjóði til rann­sóknarinnar og er í sam­starfi við ís­lenska fyrir­tækið RORUM og danska tækni­há­skólann, DTU Aqua.

RORUM er rann­sókna- og ráð­gjafar­fyrir­tæki og hefur mikla reynslu af rann­sóknum á líf­ríki ís­lenskra fjarða, ekki síst með til­liti til fisk­eldis. Davíð segir RORUM eiga gríðar­mikla gagna­seríu um líf­ríki botns við sjó­kvíar og því sé sam­starf fyrir­tækjanna mikil­vægt því að RORUM hafi mikla þekkingu á því hvernig líf­ríkið breytist við aukið líf­rænt álag, hvaða tegundum fækkar og hverjum fjölgar. Þetta eru einkum tegundir svo­kallaðra bursta­orma, en það eru ormar sem lifa í miklum fjölda á botninum og bregðast við breyttum um­hverfis­að­stæðum.

„Þegar þetta líf­fræði­lega álag fer að hafa á­hrif á botninn breytist sam­setning líf­veranna, bæði hvað varðar tegundir sem þar lifa á­samt fjölda ein­stak­linga í hverri tegund. Þessar breytingar viljum við nema hratt og örugg­lega“ segir Davíð.

Í ár verður fyrst unnið að því að byggja upp gagna­grunn með þeim dýra­tegundum sem lifa á botni nærri sjó­kvíum og þróa erfða­tæknina. Á næsta ári verður notaður sjálf­virkur há­tækni­búnaður, hálf­gert vél­menni, sem er í eigu DTU til að hefja mælingar undir kvíum. Vél­mennið síar sjóinn og ein­angrar erfða­efnið til þess að gera mælingarnar.

„Vél­mennið getur gert PCR-próf í sjónum, svipað og prófin sem eru notuð til þess að greina Co­vid,“ segir Davíð. Verður einkum horft til fimm tegunda bursta­orma í rann­sókninni. Það sé nægi­legur fjöldi til að segja til um á­stand sjávar­botnsins í heild enda byggir val ormanna á ára­tuga­löngum rann­sóknum og vöktunum RORUM vegna fisk­eldis.

Eins og áður segir er stefnt að því að rann­sóknin taki þrjú ár. Davíð segir að þegar niður­stöðurnar liggi fyrir nýtist þær sem tæki fyrir stjórn­völd til að vakta á­hrif fisk­eldis og ekki síst fyrir fyrir­tækin sem bera á­byrgð á því að stýra fram­leiðslunni.