Matís hefur brátt viðamikla rannsókn á ástandi sjávarbotnsins undir fiskeldisstöðvum. Er þetta gert með hátæknibúnaði og erfðafræðilegum aðferðum til þess að sjá hversu mikil áhrif lífrænn úrgangur hefur á lífríkið undir kvíunum.
„Við höfum mikinn áhuga á umhverfismálum fiskeldis og erfðafræðilegum aðferðum til að leysa þau,“ segir doktor Davíð Gíslason, verkefnastjóri hjá fyrirtækinu.
Í hverri kví eru yfir 100 þúsund eldisfiskar og á hverri stöð eru oft um tíu kvíar. Þetta þýðir að yfir milljón fiskar eru á hverri eldisstöð en til samanburðar er heildarfjöldi villta íslenska laxins á bilinu 50 til 60 þúsund fiskar. Eldisstöðvar eru því mjög ónáttúrulegt fyrirbæri og skapa mikið magn lífræns úrgangs. Af þeim sökum þarf að hvíla eldissvæði á milli eldislota til þess að þau nái að komast aftur í sem eðlilegast ástand, ekki ósvipað því þegar bóndi tekur fjóshauginn og ber á túnin.
Davíð segir að verkefnið miði að því að geta á nákvæman hátt stjórnað hvíldartíma. Mikil vinna sé fólgin í að safna sýnum og greina dýrategundir til að leggja mat á líffræðilega fjölbreytni. Slík vinna hafi því eðlilega verið bæði tíma- og mannaflafrek. „Við ætlum að einfalda ferlið með erfðatækni,“ segir hann.
Matís fékk styrk úr Tækniþróunarsjóði til rannsóknarinnar og er í samstarfi við íslenska fyrirtækið RORUM og danska tækniháskólann, DTU Aqua.
RORUM er rannsókna- og ráðgjafarfyrirtæki og hefur mikla reynslu af rannsóknum á lífríki íslenskra fjarða, ekki síst með tilliti til fiskeldis. Davíð segir RORUM eiga gríðarmikla gagnaseríu um lífríki botns við sjókvíar og því sé samstarf fyrirtækjanna mikilvægt því að RORUM hafi mikla þekkingu á því hvernig lífríkið breytist við aukið lífrænt álag, hvaða tegundum fækkar og hverjum fjölgar. Þetta eru einkum tegundir svokallaðra burstaorma, en það eru ormar sem lifa í miklum fjölda á botninum og bregðast við breyttum umhverfisaðstæðum.
„Þegar þetta líffræðilega álag fer að hafa áhrif á botninn breytist samsetning lífveranna, bæði hvað varðar tegundir sem þar lifa ásamt fjölda einstaklinga í hverri tegund. Þessar breytingar viljum við nema hratt og örugglega“ segir Davíð.
Í ár verður fyrst unnið að því að byggja upp gagnagrunn með þeim dýrategundum sem lifa á botni nærri sjókvíum og þróa erfðatæknina. Á næsta ári verður notaður sjálfvirkur hátæknibúnaður, hálfgert vélmenni, sem er í eigu DTU til að hefja mælingar undir kvíum. Vélmennið síar sjóinn og einangrar erfðaefnið til þess að gera mælingarnar.
„Vélmennið getur gert PCR-próf í sjónum, svipað og prófin sem eru notuð til þess að greina Covid,“ segir Davíð. Verður einkum horft til fimm tegunda burstaorma í rannsókninni. Það sé nægilegur fjöldi til að segja til um ástand sjávarbotnsins í heild enda byggir val ormanna á áratugalöngum rannsóknum og vöktunum RORUM vegna fiskeldis.
Eins og áður segir er stefnt að því að rannsóknin taki þrjú ár. Davíð segir að þegar niðurstöðurnar liggi fyrir nýtist þær sem tæki fyrir stjórnvöld til að vakta áhrif fiskeldis og ekki síst fyrir fyrirtækin sem bera ábyrgð á því að stýra framleiðslunni.