Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, sækist eftir öðru sæti lista Viðreisnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Prófkjör Viðreisnar í borginni fer fram 4.-5. mars næstkomandi.

Pawel var í öðru sæti í kosningunum 2018 þegar Viðreisn hlaut 8,2 prósent atkvæða og tvo borgarfulltrúa. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sækist eftir því að halda oddvitasætinu og hefur verið uppi kvittur um að Pawel ætlaði sér einnig oddvitasætið. Fyrr í dag sagði Geir Finnsson að hann sóttist eftir þriðja sætinu.

Styður Borgarlínu heilshugar

„Ég hef á kjörtímabilinu barist fyrir grænum áherslum í skipulagsmálum, ég hef stutt þéttingu byggðar, ég hef stutt fjölgun göngugatna, ég hef stutt við uppbyggingu hjólastíga og ég hef stutt við Borgarlínuverkefnið, heilshugar,“ segir Pawel í yfirlýsingu til fjölmiðla.

„Sem formaður í skipulagsráði hef ég lagt kapp á skipulagsferlar í borginni gangi hratt og vel fyrir sig. Í minni tíð, frá árinu 2021, hefur verið lokið við deiliskipulag lóða fyrir yfir 3 þúsund íbúðir. Á næsta kjörtímabili þurfum við að halda áfram á svipaðri braut en leggja enn meiri áherslu á skipulagningu nýrrar byggðar í Vatnsmýri.“

Þá segist hann stoltur af því að hafa náð í gegn lækkun fasteignaskatta. „Ég beitti mér fyrir því að borgin tæki rafskútum opnum örmum og það er ánægjulegt að sjá þann frjálsa markað blómstra. Ég mun áfram beita mér fyrir því að máttur einkaframtaksins fái notið sín í borginni, að borgin standi ekki í samkeppnisrekstri og að fleiri verkefni verði boðin út eða unnin í samstarfi við einkaaðila.“