Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, hefur tekið við sem forseti borgarstjórnar í Reykjavík af Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata. Pawel var kosinn í embættið á síðasta fundi borgarstjórnar fyrir sumarhlé sem var í gær en kosningin er til eins árs.

Gert er ráð fyrir að Pawel sitji sem forseti út kjörtímabilið, það er næstu þrjú árin. Þegar borgarstjórnarmeirihlutinn var myndaður var þannig samið um þetta fyrirkomulag; Dóra Björt yrði forseti borgarstjórnar til eins árs en svo tæki Pawel við og sæti út kjörtímabilið.

„Ég er að vonum ánægður með það traust sem mér er sýnt og er spenntur fyrir þeim verkefnum sem framundan eru. Mikilvægasta verkefnið sem snýr að mínu nýja embætti finnst mér vera að sjá til þess að borgarstjórn leitist við að búa til andrúmsloft sem hvetur til málamiðlana og samtals,“ segir í tilkynningu frá Pawel. „Ég hlakka til þeirra þriggja ára sem framundan eru og góðs samstarfs við alla borgarfulltrúa.“

Eitt af fyrstu verkefnum Pawels í embættinu verður ekki af verri endanum. Hann mun í dag klukkan 11 leggja blómsveig að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði í tilefni að Kvenréttindadeginum sem nú er haldinn hátíðlegur. Þá sagði Pawel á fundinum í gær að kjörorð hans sem forseti yrðu þrjú: fyrirsjáanleiki, formfesta og sanngirni.

Þá hefur Pawel sagt af sér formennsku menningar-, íþrótta og tómstundaráðs og tekur Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi samfylkingar við því embætti. Dóra Björt mun nú einbeita sér að störfum sínum sem formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs en hún sinnti formennskunni áður samhliða störfum sínum sem forseti borgarstjórnar.