Nóttin var annasöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en alls voru 62 mál skráð í kerfum lögreglu í nótt.

Mikill erill var í miðborginni í nótt en lögregla þurfti að sinna fjölmörgum málum í hverfinu vegna hávaða og ónæðis ásamt því að lögregla sinnti þjófnaðarmálum og ölvunarmálum. Þá aðstoðaði lögregla einnig sjúkralið vegna slysa.

Um ellefu leytið var lögregla kölluð út ásamt slökkviliði vegna bruna í báti við Grandagarð, vel gekk að slökkva eldinn. Engin hætta var á ferðum og enginn um borð í skipinu. Gangandi veg­farandi hafi séð reyk leggja frá skipinu og hringt á slökkvi­lið.

Í Kórahverfi í Kópavogi hafði lögregla afskipti af fólki sem skaut þar upp flugeldum í óleyfi. Maður var einnig handtekinn í Kópavogi, grunaður um þjófnað og önnur brot. Tilkynnt var um slagsmál ásamt því að fjölmörgum hávaðakvörtunum var sinnt.

Í Hafnarfirði sinnti lögregla útköllum vegna samkvæmishávaða, líkamsárása og þjófnaðar, einnig var talsvert um minniháttar mál á svæðinu.