Frá og með morgundeginum geta einstaklingar með COVID-19 fengið Parkódín án lyfseðils í apóteki. Hver sjúklingur getur fengið tíu 500mg./10 mg. töflur.

Framvísa þarf vottorði úr Heilsuveru um staðfest Covid smit og gildir undanþágurásðstöfunin einungis dagana 16.  mars -18. apríl.

Ástæða breytinganna eru mikil Covid veikindi í þjóðfélaginu og álag á heilbrigðiskerfið. Sæki annar aðili en sjúklingurinn sjálfur Parkódín í apótek þarf viðkomandi að hafa gilt umboð til að sækja lyf fyrir viðkomandi, sem veitt er á Heilsuveru og hafa meðferðis vottorð þess aðila, sem sótt er fyrir, úr Heilsuveru um staðfest COVID-19 smit. Vottorðið má ekki vera eldra en mánaðargamalt.

Mikið álag á Heilsugæslunni

Sérlega mikið álag hefur verið á Heilsugæslunni eftir að hún tók við meginhluta af þjónustu og eftirliti með Covid veikum einstaklingum. Langflestir hafa samband í gegnum síma eða netspjall heilsugæslunnar vanti þeim læknis- eða hjúkrunaraðstoð vegna Covid en í því felst meðal annars afgreiðsla lyfseðla.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins, segir flesta þá sem séu smitaðir af Covid-19 ekki mikið veika, þó hluti sjúklinga glími við alvarleg einkenni. Eitt þeirra einkenna sem margir glími við sé hósti, hann megi til dæmis meðhöndla með parkódíni sem hafi hóstastillandi áhrif.

Getur verið vanabindandi

Í fylgisðeli Parkódíns í Sérlyfjaskrá segir að lyfið geti verið vanabindandi. Ávanahættan sé meiri eftir því sem skammtar séu stærri eða lyfið notað til lengri tíma og hjá þeim sem hafa tilhneigingu til misnotkunar lyfja eða áfengis. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun er afar mikilvægt að öll þau sem neyti lyfsins lesi fylgiseðilinn.

Lyfjafræðingar í apótekum munu veita ráðgjöf varðandi Parkódín til Covid sjúklinga ásamt því að fyrirmæli um notkun lyfsins verða skráð á pakkningu þess. Apótek hafa nú þegar fengið leiðbeiningar á útfærslu sendar til sín.

Selt í lausasölu fram til ársins 2005

Parkódín var tekið úr lausasölu þann 1. október árið 2005 og gert lyfseðilsskylt. Áður var hægt að kaupa lyfið í litlu magni í apótekum án lyfseðils. Á vef embættis landlæknis segir að margir hafi misnotað lyfið og að dæmi væru um að fólk gengið á milli apóteka til að sanka að sér Parkódíni.