Aurore Pelier Cady hefur starfað í geiranum í fimmtán ár en draumurinn var alltaf að opna sína eigin verslun og safnaði hún fyrir draumnum á Karolina Fund.

Listina lærði hún í skóla Institut Paul Bocuse og öðlaðist í framhaldi reynslu á virtum stöðum í höfuðborg Frakklands. Hún starfaði á Four Seasons George V hótelinu, KL Pâtisserie, Un Dimanche A Paris og Lancaster.

Aurore hefur gert húsnæðið að Bergstaðastræti 14 að sínu með fallegu vegglistaverki og einföldum og stílhreinum innanstokksmunum.

Hér má sjá sýnishorn af dísætri dýrðinni sem finna má við Bergstaðastræti. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Aurore hefur gert húsnæðið að Bergstaðastræti 14 að sínu með fallegu vegglistaverki og einföldum og stílhreinum innanstokksmunum.

„Ég fékk lyklana að húsnæðinu fyrir einum og hálfum mánuði og fór strax í framkvæmdir. Vinkona mín, sænska listakonan Sanna Nordahl, hannaði lógó verslunarinnar og í sameiningu hönnuðum við og máluðum vegglistaverkið sem er innblásið af íslenskum jökulám.“

Stærri tertur verða í boði um helgar en einnig má panta á vefsíðunni sweetaurorareykjavik.com. Fréttablaðið/SIgtryggur Ari

Frönsk gæði með íslensku ívafi


Á staðnum er boðið upp á kaffi og te innflutt beint frá París.

„Ég hef tekið þátt í opnunum tveggja sætabrauðsverslana í París og vil halda sama gæðastandard og þar er uppi. Langtímamarkmið mitt var alltaf að eignast mína eigin verslun og það er góð tilfinning að vera búin að opna. Leigusamningurinn er þrír mánuðir í upphafi og vonandi gengur reksturinn það vel að ég geti gert langtímasamning.“

„Leigusamningurinn er þrír mánuðir í upphafi og vonandi gengur reksturinn það vel að ég geti gert langtímasamning.“

Fjölbreyttar makkarónur eru að sjálfsögðu í boði. Fréttablaðið/SIgtryggur Ari

Aurore hefur opnað glæsilega vefsíðu, sweetaurorareykjavik.com, þar sem skoða má seðilinn og einnig sérpanta sætindin sem hafa verið vinsæl í veislur og brúðkaup.

Hér á landi hefur Aurore starfað á Slippbarnum, Hótel Húsafelli og nú síðast á Dill og segist hún á þessum stöðum hafa lært mikið um íslenskt hráefni og jurtir en markmiðið er að Parísarkökurnar fái örlítið íslenskt ívaf.

„Ég fer mikið í Heiðmörk um helgar að tína jurtir og grös sem ég er að prófa mig áfram með að nota í kökur og skreytingar.“

„Ég fer mikið í Heiðmörk um helgar að tína jurtir og grös sem ég er að prófa mig áfram með að nota í kökur og skreytingar.“

Aurore nýtir íslenskar jurtir í skraut. Fréttablaðið/SIgtryggur Ari

Nú er ætlunin að hafa opið frá níu til fimm, miðvikudaga til sunnudaga en Aurore ætlar að endurskoða það þegar hún gerir sér betur grein fyrir eftirspurninni.

„Hina dagana nota ég til að baka, svo það verður nóg að gera.“

Aurore á nú þegar sinn kúnna­hóp hér á landi sem er blanda af Íslendingum og Frökkum, sem sífellt eru að verða fjölmennari hópur hér á landi, og hlakkar hún til að bæta við enn fleiri viðskiptavinum í litlu sætindabúðinni við Bergstaðastræti.