Par frá Miðausturlöndum greindist með Delta-afbrigði kórónaveirunnar, einnig kallað indverska afbrigðið, hér á landi. Vísir greindi fyrst frá en um er að ræða einstaklingana sem greindust með COVID-19 utan sóttkvíar í fyrradag.

„Þau voru alveg einkennalaus og fullbólusett. Mögulega er það ástæðan fyrir því að þau sýndu engin einkenni. Þau höfðu einnig farið í sóttkví,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra, í samtali við Fréttablaðið. Hún staðfestir að enginn hafi þurft að fara í sóttkví vegna þeirra en þau voru bæði einkennalaus.

Parið var á heimleið þegar það greindist með þetta afbrigði í skimun. Þau dvelja nú í einangrun á Farsóttarhúsi og fá svo að halda leiðar sinnar að einangrun lokinni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Delta-afbrigðið greinist á Íslandi en það hefur þó aldrei farið á dreifingu um samfélagið. „Það hafa fleiri greinst með þetta afbrigði fyrir ferðir, nokkrir greindust í maí en það voru ekki margir,“ segir Hjördís.