Héraðssaksóknari gaf í síðustu viku út ákæru á hendur pari sem grunað er um stórfelld kynferðisbrot gegn dætrum sínum. Brotin eru þess eðlis að þau geta varðað allt að 16 ára fangelsi.

Nauðguðu annarri stúlkunni og tóku það upp

Þau eru ákærð fyrir kynferðisbrot gegn barni og stórfellt brot í nánu sambandi. Auk þess eru þau ákærð fyrir áfengislagabrot, með því að hafa föstudaginn 2. febrúar og aðfaranótt laugardagsins 3. febrúar nauðgað saman stúlku sem er dóttir annars þeirra og stjúpdóttir hins. Þau nauðguðu henni með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, auk þess sem þau tóku bæði hreyfi – og ljósmyndir af brotunum og framleiddu þannig myndefni sem sýnir stúlkuna á kynferðislegan hátt.

Létu hina stúlkuna horfa á 

Í öðru lagi eru þau ákærð fyrir kynferðisbrot og brot í nánu sambandi með því að láta dóttur þeirra horfa á brotin gegn systur sinni. Með þeirri háttsemi særðu þau blygðunarsemi hennar auk þess sem þau ógnuðu á alvarlega hátt velferð hennar.

Konunni gert að sæta aftur gæsluvarðhaldi

Landsréttur staðfesti síðasta föstudag að konan sem sat upphaflega aðeins í gæsluvarðhaldi í tvær vikur skyldi aftur sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Það hafi verið gert eftir að Héraðssaksóknari fór yfir gögnin og þótt ákærða sé aðeins grunuð um eitt brot þá telji ákæruvaldið „að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegum brotum og ákærðu eru gefin að sök og hún hafi þegar játað að hluta til, gangi laus áður en máli ljúki með dómi, þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings.“

Samkvæmt gögnum málsins, og einkum þeim upptökum sem fundust á heimili ákærðu, er fallist á að ákærða sé undir sterkum grun um að hafa brotið með alvarlegum hætti gegn dóttur sinni og er henni því gert að sæta gæsluvarðhaldi til 31 .október.

Úrskurðinn má lesa hér.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst var vísað í að parið hafi búið til barnaklám, en rétt hugtak er barnaníðsefni. Með því að búa til myndefni sem sýnir börn á kynferðislegan hátt er verið að níðast á börnum, því er barnaníðsefni rétt hugtak um slík brot.