Norskur maður og sænsk kona létust í báta­slysinu við Strömstad fyrr í dag. Þau eru talin hafa verið par sem bjó í Sví­þjóð en sænska lög­reglan vill ekki gefa upp hver aldur þeirra látnu hafi verið. Verdens Gang greinir frá þessu.

Björgunar­sveitir fluttu í morgun tvo ein­stak­linga á sjúkra­hús eftir að þeir fundust líf­lausir nærri braki úr bát utan við Strömstad í Sví­þjóð. Frétta­blaðið greindi frá þessu fyrr í dag.

Vincent Roos sem sá um björgunina í dag sagði parið lík­legast hafa verið eitt á bátnum og því ó­lík­legt að fleiri hafi farist í slysinu.

Roos sagði það vera ó­ljóst hvað hafi gerst en þeirra kenning sé að báturinn hafi lent í hnjaski og sokkið þar af leiðandi.

Norska landhelgisgæslan greindi fyrst frá þessu á Twitter reikningi sínum og birti myndir af vettvangi.