Tveir karlmenn, annar á fertugsaldri og hinn á þrítugsaldri, hafa verið ákærðir fyrir frelsissviptingu og rán.

Árásin átti sér stað fyrir utan Hagkaup í Skeifunni aðfaranótt 16. apríl 2020. Karlmaður og kona sátu saman í kyrrstæðum bíl fyrir utan verslunina, í ökusæti og fremra farþegasæti, þegar mennirnir tveir réðust inn í bílinn og lögðu hnífa að hálsum þeirra.

Mennirnir réðust inn í bíl fyrir utan Hagkaup í Skeifunni og skipuðu parinu að keyra að Glæsibæ.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Í ákærunni, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að mennirnir hafi þá kýlt bæði manninn og konuna í andlitið og hótað að stinga þau með sprautunál. Þeir skipuðu parinu að keyra að Glæsibæ, þar sem annar mannanna tók við akstri og ók að Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal, þar sem þeir neyddu manninn til að millifæra 780 þúsund krónur inn á reikning annars þeirra. Þaðan óku þeir að Metro í Skeifunni og tóku síma þeirra og bíllykla og fóru af vettvangi.

Konan hlaut vægan heilahristing við árásina að því er fram kemur í ákærunni. Maðurinn krefst þess að mennirnir greiði honum tæpar 1,5 milljónir króna í miskabætur og konan krefst 700 þúsund króna í miskabætur.

Fyrirtaka fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.