Par frá Mel­bour­ne í Ástralíu hefur hlotið dóm fyrir að halda ind­verskri konu fanginni sem þræl í átta ár, sam­kvæmt frétt frá The Guar­dian.

Ástralska konan Kumut­hini Kannan er sögð ekki hafa virðist finna fyrir neinni eftir­sjá eða sektar­kennd yfir því sem hún hafði gert. Hún var talin bera meiri sök í máli og fékk dóm upp á átta ár, jafn lengi og hún hélt þolandanum föngnum.

Maðurinn hennar, Kanda­samy Kannan, fékk sex ára dóm. Honum var lýst sem að hafa veikan per­sónu­leika og stjórnast mikið af konunni sinni.

Dómarinn, John Champion, sagði parið sýna enga eftir­sjá á meðan á málinu stóð. „Þetta er nokkuð svaka­legur skortur á mann­úð,“ segir hann.

Ekkja með fjögur börn

Ind­verska konan hafði unnið fyrir fjöl­skylduna í stuttan tíma árið 2002 og 2004. Hún kom aftur árið 2007 og var þá með vega­bréfs­á­ritun fyrir eins mánaða dvöl.

Hún neyddist til að hætta í skóla sex ára gömul og vann á ökrum frá tólf ára aldri. Síðar vann hún á byggingar­svæðum og í elda­mennsku.

Hún varð ung ekkja með fjögur börn og bjó við erfiðar að­stæður í Ind­landi sam­kvæmt dómaranum. Ástralska parið hélt henni í haldi í átta ár og neyddi hana til að vinna fyrir sig allt að 23 tíma daga á meðan hún bað um að komast heim að huga að börnum sínum.

Hún var látin hugsa um börn parsins, elda fyrir fjöl­skylduna, þrífa og gera hús­verk. Hún varð fyrir miklu of­beldi, heitum mat og drykkjum kastað á hana, hún var lamin með frosnum kjúk­ling. Fyrir vikið fékk hún greidda rúma þrjá Banda­ríkja­dali á dag.

Þegar þurfti að drífa konuna á spítala árið 2015 komst að lokum upp um parið. Þrátt fyrir að hafa logið og inn­ritað hana undir röngu nafni þá var á endanum leyst úr lyga­vefnum. Konan er nú sex­tug.