Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Framsóknarflokkinn af kröfu fjölmiðlafyrirtækisins Forystu, sem krafðist hafði rúmlega fimm milljóna króna fyrir ráðgjöf í tengslum við Alþingiskosningarnar árið 2016.

Í dómi héraðsdóms segir að enginn ágreiningur sé um það að Forysta hafi ekki fengið samþykki framkvæmdastjórnar flokksins um ráðgjöf almannatengsilsins Viðars Garðarssonar hjá fjölmiðlafyrirtækinu sem annaðist ráðgjöf fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formann flokksins, í þingkosningunum 2016.

„Fékk áfall“ yfir kostnaði vegnar ráðgjafarinnar

Forsaga málsins er rakin í dómnum en þar kemur fram að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í borginni á þeim tíma, hafi kynnt Viðar, framkvæmdastjóra Forystu, fyrir Sigmundi Davíð, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur og Hrólfi Ölvissyni, þáverandi framkvæmdastjóra flokksins. 

Viðar átti fund með þeim þremur og var ætlunin að hann myndi veita Sigmundi Davíð ráðgjöf eftir leka Panamaskjalanna og í kjölfar endurkomu Sveinbjargar í borgarstjórn eftir fæðingarorlof. 

Á fundum sínum með Sigmundi segist Viðar hafa nefnt að kosningabaráttan sem hann sæi fyrir sér fyrir kosningarnar 2016 myndi kosta í kringum 100 milljónir króna. Viðar segir töluna hafa verið setta fram í hálfkæringi en að Hrólfur hafi „fengið áfall“ og sagt að flokkurinn byggi ekki yfir slíkum fjármunum.

Tóku til varna með léninu panamaskjolin.is

Viðar kvaðst fyrir dómi hafa skipulagt myndatöku, pantað tíma í stúdíói og ráðið til þess ljósmyndara og förðunarfræðing. Í aðilaskýrslu sinni kvað Viðar ástæður myndatökunnar hafa verið þær að myndirnar sem hefðu birst af Sigmundi í tengslum við umfjöllun um Panama-skjölin hafi verið mjög neikvæðar í samræmi við málefnið en samkvæmt reynslu sinni væru fjölmiðlar yfirleitt „samstarfsfúsir ef þeim væri útvegað myndefni“.

Auk þess lét Viðar smíða vefsíðuna panamaskjolin.is til þess að „setja strik í sandinn og taka til varna“. Sagði Viðar hugmyndina hafa verið að Sigmundur gæti alltaf vísað í þennan vef ef Panama-skjölin kæmu upp kosningabaráttunni. Þá lét hann einnig smíða vefsíðuna islandiallt.is til að „sækja fram“. 

Aðspurður fyrir dómi nánar um hvaða þjónusta hafi verið veitt til Framsóknarflokksins á þessum tíma og hvað hafi verið fólgið í störfum Svans Guðmundssonar, eiginmanns vitnisins Guðfinnu Jóhönnu á þessum tíma, kvaðst Viðar hafa fengið hann til að vinna „ákveðna greiningarvinnu, hvaða blaðamenn voru að skrifa hvað“ og „hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð erfiðastir.“

Baráttan of dýr en gæti borið árangur

Sagðist Viðar hafa afhent Sigmundi Davíð bréf um hvað fælist í störfum hans fyrir flokkinn í þeirri trú að það yrði afgreitt af framkvæmdastjórn flokksins. 

Fyrir dómi kvaðst Sigmundur Davíð ekki minnast þess að hafa lesið umrætt bréf, en hann teldi sig þó ekki getað neitað því að hafa tekið við því. Hann sagðist hafa verið sammála Hrólfi um að upplegg Viðars væri of dýrt en taldi það geta borið árangur.

Einar Gunnar Einarsson, sem tók við starfi framkvæmdastjóra flokksins af Hrólfi, og Eygló Harðardóttir, þáverandi ritari flokksins, áttu bæði sæti í stjórn flokksins og sögðu fyrir dómi að þau hafi ekki orðið var við bréf Viðars eða vinnu hans fyrir flokkinn.

Fyrir dóm kom einnig myndatökumaður sem sagðist þekkja til Viðars. Hann staðfesti fyrir dómi að hann hefði verið fenginn til að taka myndir og klippa efni af miðstjórnarþingi flokksins í september 2016. Segist hann einungis hafa unnið efnið fyrir „kosningabaráttu Sigmundar“ en ekki fyrir flokkinn. Þeir bútar sem hann klippti til hafi einungis verið af Sigmundi og þeir birst á Facebook-síðu hans. Sú vinna hafi kostað 320 þúsund krónur en hann ekki enn fengið greitt.

Greiddi rúmlega milljón úr eigin vasa

Vinnu Viðars og Forystu lauk í september 2016 og lagði hann þá út reikning. Eftir að hafa fengið neitun frá Framsókn lagði Sigmundur sjálfur út rúma milljón króna fyrir hluta af reikningnum. 

Í janúar 2017 ítrekaði flokkurinn, eftir aðra beiðni Viðars, að hann fengi ekki greitt. 

Í dómi héraðsdóms segir að Viðar hafi ekki getað gengið út frá því að Sigmundur hefði einn umboð til þess að stofna til skuldbindinga, það er vinnu Viðars. Í bréfi Viðars komi skýrt fram að báðir aðilar óski samþykkis framkvæmdastjórnar. Það hafi verið forsenda þess að hann starfaði fyrir flokkinn. Slíkt svar hafi hins vegar aldrei borist og því hafi það „enga þýðingu að fjalla um málsástæður stefnanda um rétt hans til að ákveða verð fyrir þjónustu þar sem ekki er samið um greiðslu fyrir verk fyrirfram,“ eins og segir í dóminum.

Er Framsóknarflokkurinn því sýknaður fyrir dómi og Forystu gert að greiða málskostnað að fjárhæð 1,1 milljón króna.