Ó­á­nægja er innan Þjóð­leik­hússins með Bíla­stæða­sjóð eftir að einn starfs­maður var sektaður og annar fékk að­vörun inni á lokuðu bíla­stæði starfs­manna. Kemur það beint í kjöl­far ó­á­nægjunnar með tafir á fram­kvæmdum á Hverfis­götu.

„Inni á lóð Þjóð­leik­hússins er bíla­stæði sem er lokað með slá. Út af því hvernig fram­kvæmdum er háttað, og menn komast ekki að húsinu, þá leyfði Pálmi Gests­son leikari sér að leggja upp á gang­stétt inni á þessu lokaða bíla­stæði. Og fékk að­vörun um sekt frá Bíla­stæða­sjóði,“ segir Ari Matthías­son þjóð­leik­hús­stjóri.

„Ég hringdi í þá og spurði hvort þeir væru í al­vörunni að koma inn á lokuð bíla­stæði til að sekta fólk. Þá er það víst þannig að um­ferðar­lögin gilda líka um lokuð bíla­stæði.“

Myndi hann kjósa að litið verði á málið út frá að­stæðum. „Það er ekki hægt að komast að húsinu nema frá Lindar­götu, sem er ekki hægt að komast á nema frá Skúla­götu, sem er að hluta til lokuð. Þangað er ekki hægt að komast nema frá Sæ­braut, sem er líka að hluta til lokuð. Þar að auki er Lækjar­gata lokuð.“

Ari segist myndu kjósa að litið verði á málið út frá aðstæðum.
Fréttablaðið/Ernir

Pálmi segir að starfs­fólk leggi reglu­lega á gang­stéttinni og enginn hafi áttað sig á að þarna væri hægt að sekta fyrr en í þessari viku.

„Þetta er okkar svæði, þetta er lokuð einka­lóð Þjóð­leik­hússins,“ segir Pálmi.

Þá eru fjögur stæði frá­tekin fyrir hreyfi­hamlaða, en enginn hreyfi­hamlaður starfar í leik­húsinu. Einn starfs­maður lagði í slíkt stæði og fékk 20 þúsund króna sekt.

Í svari Bíla­stæða­sjóðs við fyrir­spurn Frétta­blaðsins segir að ef um lög­gilt skilti sé að ræða og ekki sé sjáan­legt P-kort á mæla­borðinu þá sé reglan að sekta. Reglurnar séu ekki nýjar og mjög skýrar.

Pirringurinn vegna bíla­stæðanna bætist ofan á seinkun fram­kvæmda við endur­nýjun á Hverfis­götu. Átti þeim að vera lokið fyrir menningar­nótt, en frestast fram í nóvember.

„Við höfum fengið mis­vísandi eða rangar upp­lýsingar um verk­lok. Ég hef alla tíð lagt á það á­herslu að Þjóð­leik­húsið fái eins sannar og góðar upp­lýsingar og hægt er til þess að við getum brugðist við og lagað starf­semi okkar að þessari fram­kvæmd. Framan af var tals­verður mis­brestur á því,“ segir Ari.

Hann segir lokanirnar hafa komið niður á starfinu. „Að­gengi að Þjóð­leik­húsinu er stór­lega skert. Mikið af okkar gestum er eldra fólk og börn, sumir eru hreyfi­hamlaðir. Það er mjög baga­legt hversu langt inn í leik­árið þessar fram­kvæmdir hafa dregist.“