Guðlaug Guðjónsdóttir ber, ásamt Hannesi Þór Hafsteinssyni, ábyrgð á gróðursetningu fimm pálmatrjáa við Sunnuveg í Laugardal. Guðlaug og Hannes starfa bæði sem garðyrkjufræðingar fyrir Reykjavíkurborg en Guðlaug segir í samtali við Fréttablaðið verkefnið vera tilraunastarfsemi sem kom upp af tilviljun og tengist ekki áformuðu listaverki í formi tveggja pálma í Vogabyggð.

Tilraunastarfsemi garðyrkjufræðinga

Tillagan þýska listamannsins, Karin Sander, Pálmatré, bar sigur úr bítum i samkeppninni um útilistaverk í Vogabyggð. Áætlaður kostnaður listaverksins er 140 milljónir. Verkið samanstendur af tveimur pálmatrjám sem komið hefur verið fyrir í gríðarstórum turnlaga gróðurhúsum sem verða í almenningsrými.

„Þetta var svo sem ekki hugmynd út frá því,“ segir Guðlaug og kveður þar með niður allar kenningar um að tilraunastarfsemin tengist fyrirhuguðum pálmum í Vogakerfi. „Það var nú þannig að Hannes sá þessar plöntur til sölu í Blómavali og kom að máli við mig hvort ég væri til í að við myndum kaupa þetta og prófa.“

Áformað listaverk í Vogabyggð.
Tölvuteikning.

Nokkrir þúsundkallar

Guðlaug samþykkti kaupin og var þar með á undan þýska listamanninum að koma fyrir pálmatrjám í Reykjavík. „Þetta er ekkert 150 milljón króna verkefni, þetta er nú bara svona nokkrir þúsund kallar,“ bætir hún hlægjandi við.

„Við þurfum bara að finna út úr því hvernig við viljum skýla þessu yfir veturinn,“ segir Guðlaug og vonast til að pálmarnir lifi af veturinn. Hún segir ekki ósennilegt að fleiri pálmatré líti bráðlega dagsins ljós. „Maður væri kannski ekki að setja neitt svakalega mikið af þessu, því það fylgir því mikil vinna að skýla þessu vel, en ef vel gengur þá komum við örugglega til með að setja pálmatré á fleiri staði hérna í dalnum.“

Pálmatré um alla borg

„Við áttum ekki von á því að þetta myndi vekja svona mikla athygli.“ Guðlaug segir að pálmunum hafi verið plantað fyrir framan bækistöðvar starfsmanna á svæðinu. „Þrátt fyrir að trén séu ekki beint í alfaraleið er þó auðveldlega hægt að ganga að þeim og bera pálmanna augum.“

Stöðugt er unnið í því að auka flóruna í garðinum að sögn Guðlaugu. „Það er svo ótrúlega gaman að prufa sig áfram með eitthvað nýtt.“ Hún hlakkar til að fylgjast með hvernig pálmatrén þrífast í nýja umhverfi sínu.