Upp­lýsinga­fundur al­manna­varna­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra og em­bætti land­læknis hófst klukkan ellefu. Þar fóru Kamilla S. Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varnar­læknis, og Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn al­manna­varna, yfir stöðuna varðandi fram­gang far­aldurs Co­vid-19 hér á landi. Páll Matthías­son for­stjóri Land­spítalans var einnig á fundinum og fór yfir stöðuna á Land­spítalanum sem er erfið.

Víðir sagði stöðuna vera að þyngjast enda hefur vöxtur veirunnar aldrei verið jafn hraður. Við værum að nálgast þol­mörk ýmissa kerfa, þar á meðal heil­brigðis­kerfisins. Bólu­setningar væru að gagnast vel til að verja okkur en það væri til lítils að horfa til prósentu­hlut­falls þegar um ræðir líf og heilsu fólks.

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn al­manna­varna, var á fundinum í dag.
Mynd/Almannavarnir

Kamilla sagði að í næstu viku yrði lokið að bólu­setja skóla­starfs­menn sem fengu bólu­efni Jans­sen með mRNA-bólu­efnum en víða annars staðar verður bólu­setningu lokið í vikunni. Hún sagði nú unnið að því að hefja bólu­setningar tólf til fimm­tán ára. Það hefst þegar búið er að endur­bólu­setja þau sem fengu Jans­sen.

Auk þess ræddi hún bólu­setningar þeirra sem fengið hafa Co­vid. Bíða þyrfti í þrjá mánuði frá greiningu Co­vid-smits áður en þeir ein­staklingar fá endur­bólu­setningu. Kamilla sagði enn fremur að ekki þyrfti að gefa þeim sem fengið bóluefni Janssen og smituðust af Covid örvunarskammt.

Kamilla sagði að unnið væri að því að hefja bólu­setningar tólf til fimm­tán ára. Það hefst þegar búið er að endur­bólu­setja þau sem fengu Jans­sen.
Mynd/Almannavarnir

Páll fór yfir stöðuna á Land­spítalanum en nú eru 18 inni­liggjandi vegna Co­vid. Þrír eru á gjör­gæslu en enginn í öndunar­vél. Hann sagði tals­verðan hluta þeirra sem eru í eftir­liti á Co­vid-göngu­deild spítalans hugsan­lega þurfa að vera lagða inn. Páll sagði að sam­kvæmt spá­líkönum og fyrri reynslu væri toppi bylgjunnar ekki enn náð.

Spítalinn starfar nú á hættu­stigi en væri við neyðar­á­stand og erfitt væri að manna gjör­gæslu­deildina. Deild A7 er orðin full og næst verður opnað fyrir innlagnir Co­vid-sjúk­linga á lungna­deildina A6. Það væri um­hugsunar­efni hvers vegna á­standið væri svona erfitt þegar spítalinn býr yfir 600 rúmum og 20 leggjast inn á spítalann vegna Co­vid. Hinn eigin­legi bráða­spítali væri 400 rúm og al­mennt væri nýting þeirra um 95 prósent.

Einn stærsti munurinn á á­standinu nú í fjórðu bylgjunni og fyrri bylgjum væri að sam­fé­lagið væri í fullum gangi og margir þurfi á að­stoð spítalans að halda. Illa gengur að manna stöður á spítalanum, nú eru sumar­frí og starfs­fólk orðið afar þreytt enda gríðar­legt álag verið á því í eitt og hálft ár. Biðlað hafi verið til starfs­fólks að koma úr sumar­frí ef það hefur tök á en sú beiðni væri að sjálf­sögðu þung­bær. Nú fara ekki fram neinar val­kvæðar að­gerðir á spítalanum vegna sumar­leyfa og hugsan­lega verður beðið með það ef þörf krefur.

Það þarf að efla heil­brigðis­kerfið svo það sé ekki einni bylgju eða rútu­slysi frá því að fara á hliðina.

Páll sagði að nú þyrfti að beita öllum ráðum til að draga úr smitum, ná tökum á á­standinu og þegar því er lokið þarf að ráðast í að­gerðir til að auka við­bragðs­getu spítalans. Þessi veira væri komin til að vera.

„Það þarf að efla heil­brigðis­kerfið svo það sé ekki einni bylgju eða rútu­slysi frá því að fara á hliðina,“ sagði Páll. Til þess þurfi að styrkja inn­viði heil­brigðis­kerfisins. Þetta væri eitt stærsta verk­efnið sem Ís­land stæði frammi fyrir á næstu ára­tugum.

Hann þakkaði starfs­fólki Land­spítalans fyrir ó­sér­hlífni í þessu erfiða á­standi.

Ís­land er orðið rautt sam­kvæmt nýju korti Sótt­varna­stofnunar Evrópu en það var upp­fært nú í morguns­árið. Í síðustu upp­færslu þar á undan var Ís­land appel­sínu­gult. Það sýnir á­stand far­aldursins í ríkjum Evrópu­sam­bandsins og þeirra sem til­heyra evrópska efna­hags­svæðinu. Að landið sé orðið rautt merkir að fjór­tán daga ný­gengi smita fer yfir 200. Ný­gengi hér er nú 414,5.

Á Face­book-síðu utan­ríkis­ráðu­neytisins segir að þrátt fyrir að landið sé orðið rautt þýði það ekki að Ís­land sé komið á rauðan lista hjá ein­staka ríkjum eða að reglur hvað varðar ferða­lög Ís­lendinga breytist sam­stundis. Víða eru í gildi undan­þágur fyrir full­bólu­setta en nú eru 86,2 prósent Ís­lendinga sex­tán ára og eldri full­bólu­settir og 5,3 prósent til við­bótar hálf­bólu­sett.