Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítala, segir að það hafi ekki gefist mikill tími í gegnum far­aldurinn til að hafa á­hyggjur á lang­tíma­á­hrifum á­lagsins sem nú er á starfs­fólki spítalans þar sem þau eru enn stödd í miðri krísu. Hann segir þó að það sé til­efni til að óttast kulnun vegna lang­varandi á­lags á starfs­menn.

„Þetta er orðið langt álag, það er álag í hverri bylgju auð­vitað, en síðan þegar bylgjunni lýkur þá kemur þrýstingur um að vinna niður bið­lista sem hafa myndast og taka á verk­efnum sem hafa safnast upp, þannig að þetta er orðið ansi mikið lang­hlaup,“ segir Páll í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann vísar einnig til þess að það hafi reynst þung­bært að kalla starfs­fólk inn úr sumar­leyfi sem þau voru hvött til að taka þegar tæki­færi gafst og var þá ein­mitt hugsað sem kulnaðar­vörn.

„Við erum í bar­áttu við þessa veiru sem er bæði bráða­bar­átta þegar það koma svona bylgjur, en undir­liggjandi er þetta auð­vitað lang­tíma­verk­efni sem við erum að glíma við, það gefst lítið svig­rúm til að slaka á,“ segir Páll.

Páll greindi frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag að mest að­kallandi verk­efnið sem spítalinn stendur nú frammi fyrir í bar­áttunni við Co­vid-far­aldurinn sé mönnun á gjör­gæslu­deildum. Spítalinn starfar nú á hættu­stigi en 30 eru nú inni­liggjandi, af þeim eru fimm á gjör­gæslu og fjórir þeirra í öndunar­vél.

„Gjör­gæslu­með­ferð er afar mann­frek og krefst sér­hæfðs starfs­fólks, fyrst og fremst hjúkrunar­fræðinga og lækna. Það er ekki hægt að taka hvaða heil­brigðis­starfs­mann sem er og setja inn á gjör­gæslu,“ sagði Páll á fundinum og sagði það gera það að verkum að gjör­gæslan sé við­kvæmasti hlekkurinn í við­bragði innan­húss.

Spítalinn er nú í góðu sam­starfi við aðrar heil­brigðis­stofnanir á landinu, til að mynda hafa þau fengið hjálp frá ná­granna­sjúkra­húsum á Sel­fossi og í Kefla­vík, auk þess sem þau eiga í sam­starfi við hjúkrunar­heimili og sjálfs­eignar­stofnanir.

Páll segir að það sé til­efni til að óttast kulnun vegna lang­varandi á­lags á starfs­menn í faraldrinum.

„Síðan erum við í sam­tali við sjúkra­húsið á Akur­eyri, hvernig þau geta létt á okkur í kannski sér­stak­lega flóknari verk­efnum sem eru ekki tengd Co­vid, og mér sýnist að þar séu veru­legir mögu­leikar, því þetta heil­brigðis­kerfi er náttúru­lega ein heild,“ segir Páll.

Þá megi ekki gleyma að það sé einnig verið að vinna með fólkinu í landinu. „Hver einasti ein­stak­lingur er að hjálpa okkur í hvert skipti sem hann mætir ekki með ein­kenni í vinnu eða í partí, heldur fer í skimun. Þegar fólk er með grímu og þvær sér um hendur. Slík hegðun dregur úr far­aldrinum,“ segir Páll.

Þannig það mætti segja að þarna sé slag­orðið „Við erum öll al­manna­varnir“ að minna á sig?

„Já, það er bara al­gjör­lega þannig og jafn­vel meira en nokkurn tímann, því nú er ekki með sama hætti, með boðum og bönnum, verið að segja fólki hvernig það á að haga sér heldur er verið að segja; „Þið eruð full­orðin, þið vitið hvernig þið eigið að haga ykkur, gerið það.“

„Hver einasti ein­stak­lingur er að hjálpa okkur í hvert skipti sem hann mætir ekki með ein­kenni í vinnu eða í partí, heldur fer í skimun. Þegar fólk er með grímu og þvær sér um hendur. Slík hegðun dregur úr far­aldrinum,“ segir Páll.