„Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í orðsendingu til Fréttablaðsins.

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hefur lýst yfir fullu vantrausti á Pál, eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun. Framganga hans sem oddvita flokksins í nýafstaðinni kosningabaráttu hafi verið fordæmalaus. „Fulltrúaráðið getur ekki litið á þingmanninn sem trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins og óskar eftir fundi með forystu flokksins vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin,“ sagði í ályktun fulltrúaráðsins.

Páll segist hafa haldið sig til hlés í kosningabaráttunni. Þannig hafi hann talið sig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. „Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn.“

Páll segir að eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum hafi honum orðið ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja nýju framboði að málum. „Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Páll.

Hann segist ekki gera mikið með þessi vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn hafi klofnað í herðar niður og tapað öruggum meirihluta. „Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni.“