„Þessi ályktun er réttmæt. Það hefur um margra ára skeið verið stórt vandmál í fangelsum landsins að við vistum einstaklinga sem eru það veikir að þeir eiga heima á sjúkrastofnunum,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar um ályktun sem Fangavarðafélag Íslands sendi frá sér í dag.

Fangavarðafélag Íslands sendi ályktun á fjölmiðla í dag, sem stíluð er á innanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra, formann Sameykis og forstjóra Fangelsismálastofnunar.

Tilefnið er atvik sem Fréttablaðið greindi frá fyrr í mánuðinum, þegar flytja þurfti tvo fanga­verði með sjúkra­bíl á sjúkra­hús vegna al­var­legrar líkams­á­rásar sem þeir urðu fyrir af hendi fanga á Hólms­heiði 15. janúar. Meðal á­verka þeirra eru bein­brot og tals­verðir höfuð­á­verkar.

Í ályktuninni segir að Fangavarðafélagið harmi þann atburðinn og að það sé krafa félagsins að verulegar breytingar eigi sér stað á vistun einstaklinga sem glíma við geðræn veikindi. Slíkir einstaklingar séu starfsfólki og öðrum föngum hættulegir og ítrekað hafi komið upp tilfelli þar sem veikir einstaklingar ráðist á og veiti öðrum áverka, starfsfólki og samföngum.

Fangaverðir hafi hvorki menntun né forsendur til verksins

„Fangaverðir hafa í langan tíma bent Fangelsismálastofnun (FMS) á að öryggi og aðbúnaði í fangelsum væri ábótavant þar sem fjölgað hafi andlega veikum einstaklingum í fangelsum landsins,“ segir í ályktun Fangavarðafélagsins. „Því hafi ekki fylgt fjölgun starfsmanna né fræðsla í meðhöndlun slíkra einstaklinga. Jafnframt eru fangelsi landsins ekki hönnuð eða búin til að sinna slíkum einstaklingum.“

Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar tekur undir þetta, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að hingað til hafi verið mjög erfitt fyrir fangelsin að fá andlega veika einstaklinga lagða inn á spítala til meðferðar.

„Það eykur líka álag á fangelsiskerfið. Við höfum ekki neitt val nema að vista þá í fangelsunum.“ Hann bætir því við að það sé rétt að fangaverðir hafi hvorki menntun né forsendur til að sinna svo veiku fólki, enda séu þeir ekki heilbrigðisstarfsmenn.

Stærri hluti afplánar utan fangelsanna

„Fullnustukerfið hefur breyst á undanförnum árum þannig að stærri hluti einstaklinga afplánar utan fangelsa, það felur líka í sér að þeir sem eru eftir í fangelsunum eru meira krefjandi hópur og það er meiri vinna að sinna þeim,“ segir Páll. „Við erum hinsvegar bundin af þeim fjárveitingum sem settar eru í málaflokkinn og mönnum fangelsin eins og okkur frekast er unnt í samræmi við það.“

Hann segir að Fangelsismálastofnun hafi á síðustu vikum verið í góðum samskiptum við fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins og annara aðila sem fjalla um málefni veikra fanga. „Ég á von á góðum tíðindum á næstu vikum,“ segir Páll.

Félag fanga tekur undir með fangavörðum

Afstaða, félag fanga á Íslandi, sendi Dómsmálaráðuneytinu og Fangelsismálastofnun erindi í gær, sem félagið segir samhljóma erindi Fangavarðafélags Íslands.

„Afstaða skorar á stjórnvöld að líta upp úr minnisblöðum sóttvarnarlæknis og skoða stöðuna víðar í samfélaginu. Það þarf að stíga inn í fangelsin og leysa úr þeirri stöðu sem komin er upp. Það þarf að tryggja öryggi í fangelsunum til þess að ná markmiði laga um fullnustu refsinga.“