Páll Óskar segir einn af þeim látnu í skotárásinni í Noregi auðveldlega getað verið hann.

„Ég hef tvisvar troðið upp á Oslo Pride og London Pub. Þetta stendur mér svo nærri, að fyrir mér gæti þessi frétt alveg verið um Spotlight eða Kiki,“ segir Páll Óskar í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni vegna skotárásarinnar sem átti sér stað í miðborg Oslóar í nótt.

Páll Óskar segist skilja mæta vel að norsku gleðigöngunni sem átti að vera í dag hafi verið frestað á meðan verið sé að athuga hvort árásarmaðurinn hafi verið einn að verki eða í vitorði með fleirum.

Hann segist þó telja að miðað við fréttaflutning vegna málsins að maðurinn hafi verið einn að verki og því myndi hann persónulega ekki fresta göngunni.

„Nú er einmitt rík ástæða til að fara í tilfinningaþrungna og kraftmikla göngu. Ég vona að þau fresti um viku, í mesta lagi, og kýli svo á það,“ segir Páll Óskar í færslu sinni.

Páll Óskar segir lærdóm af fréttum vikunnar vera að barátta milli haturs og kærleika verði aldrei búin og vísar hann til skotárásarinnar í Noregi og skertan rétt kvenna til þungunarrofs í Bandaríkjunum sem Hæstiréttur Bandaríkjanna tók ákvörðun um í gær.

„Ef ég þarf að syngja "ÚT MEÐ HATRIÐ - INN MEÐ ÁSTINA" þar til ég verð 83 ára gömul drottning í Gleðigöngunni árið 2053, þá réttu mér míkrafón,“ segir Páll Óskar að síðustu í færslu sinni.