Páll Matthíasson forstjóri Landsspítalans hafnar því að skrifstofukostnaður spítalans hafi sprungið út. Í viðtali á Bítinu á Bylgunni í morgun gagnrýndi Páll fréttaflutning Morgunblaðsins um málið en forsíðu þess í dag segir að skrifstofan hafi blásið út og að starfsmönnum hafi fjölgað. Hann segir ekkert til í þessu og umræða um málið verði að vera byggð á gögnum. Í Morgunblaðinu segir að samkvæmt mörgum viðmælendum hafi skrifræðið innan spítalans blásið út. Starfsfólki spítalans hefur fjölgað um tæpan fjórðung á áratug, nú starfa 6.390 manns þar.
„Góð blaðamennska gengur út á það að spyrja báða aðila, þú færð fréttir og leitar staðfestingu þeirra og færð skýringar. Það hefur ekki verið gert þarna, því að skýringin er sú að við fluttum í einu lagi alla sérnámslækna, sem eru margir, yfir á skrifstofu framkvæmdastjóra lækninga sem telst til skrifstofu spítalans. Það er bara til þess að bæta utanumhald og samfellu í þeirra námi og upplifun af því að vinna á spítalanum – það er eina skýringin,“ segir Páll. Ekki hefði verið flókið mál fyrir Morgunblaðið að fá þessar upplýsingar.
Páll var ánægðari með forsíðu Fréttablaðsins þar sem sagt var frá könnun sem gerð var fyrir blaðið um afstöðu almennings til aukinna fjárveitinga til Landspítalans. Þar kom fram að 85 prósent landsmanna vilja að hann fái meira fé.
„Til þess að spítalinn geti gegnt sínum verkefnum, þá þarf meira fé,“ segir Páll og niðurstöðurnar séu traustsyfirlýsing frá almenningi við starfsfólk Landspítalans.
Theódór Skúli Sigurðsson, formaður félags sjúkrahúslækna, sagði í gær að mikil óeining væri innan spítalans og samskiptavandamál væru milli starfsfólks og yfirmanna hans.
„Hann upplifir það svona. Ég verð nú að segja það að almennt upplifi ég mikla einingu meðal starfsfólks og stjórnenda. Á sex þúsund manna vinnustað, þar sem fólk er vel menntað og öflugt, með sterkar skoðanir - þá sýnist sitt hverjum,“ segir Páll.
Theódór sagði einnig að samskiptaerfiðleikar væru milli stjórnenda spítalans og heilbrigðisyfirvalda. Páll hafnar því og segist eiga í mjög góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Uppfært kl. 09:30
Landspítalinn hefur gefið frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Morgunblaðsins og segir þar að blaðið hafi ekki leitað skýringa eða óskað viðtals við stjórnendur spítalans.
„Þetta er misskilningur. Rétt er að stöðugildi um 170 námslækna voru flutt til innan spítalans í maí 2020, frá sviðum og til skrifstofu framkvæmdastjóra lækninga og skýrir það þá aukningu sem dregin er fram. Þessir læknar störfuðu, og starfa enn jafnmikið við sjúklinga og lækningar eins og fyrir breytinguna. Um er að ræða miðlægt utanumhald og skipulag m.a. vegna alþjóðlegrar vottunar Royal College of Physicians í London sem er virtur samstarfsaðili í verkefnum sem þessum víða um heim.
Sérnámið hefur getið sér gott orð og er forsenda bæði klínískrar þjónustu og mönnunar í lækningum til framtíðar. Því er hér um að ræða lækna í sérnámi sem stunda sitt starfsnám á Landspítala og hafa m.a. leikið lykilhlutverk í viðbragði spítalans í COVID faraldrinum. Sérnámslæknar sinna þannig ekki skrifstofustörfum heldur sérnámi sínu og klínískri vinnu á spítalanum.
Morgunblaðið leitaði ekki skýringa eða viðtals við stjórnendur við vinnslu fréttarinnar og kann það að skýra framsetninguna.“