Páll Matthías­son for­stjóri Lands­spítalans hafnar því að skrif­stofu­kostnaður spítalans hafi sprungið út. Í við­tali á Bítinu á Bylgunni í morgun gagn­rýndi Páll frétta­flutning Morgun­blaðsins um málið en for­síðu þess í dag segir að skrif­stofan hafi blásið út og að starfs­mönnum hafi fjölgað. Hann segir ekkert til í þessu og um­ræða um málið verði að vera byggð á gögnum. Í Morgunblaðinu segir að samkvæmt mörgum viðmælendum hafi skrifræðið innan spítalans blásið út. Starfs­fólki spítalans hef­ur fjölgað um tæp­an fjórðung á ára­tug, nú starfa 6.390 manns þar.

„Góð blaða­mennska gengur út á það að spyrja báða aðila, þú færð fréttir og leitar stað­festingu þeirra og færð skýringar. Það hefur ekki verið gert þarna, því að skýringin er sú að við fluttum í einu lagi alla sér­náms­lækna, sem eru margir, yfir á skrif­stofu fram­kvæmda­stjóra lækninga sem telst til skrif­stofu spítalans. Það er bara til þess að bæta utan­um­hald og sam­fellu í þeirra námi og upp­lifun af því að vinna á spítalanum – það er eina skýringin,“ segir Páll. Ekki hefði verið flókið mál fyrir Morgun­blaðið að fá þessar upp­lýsingar.

Páll var á­nægðari með for­síðu Frétta­blaðsins þar sem sagt var frá könnun sem gerð var fyrir blaðið um af­stöðu al­mennings til aukinna fjár­veitinga til Land­spítalans. Þar kom fram að 85 prósent lands­manna vilja að hann fái meira fé.

„Til þess að spítalinn geti gegnt sínum verk­efnum, þá þarf meira fé,“ segir Páll og niður­stöðurnar séu trausts­yfir­lýsing frá al­menningi við starfs­fólk Land­spítalans.

Theó­dór Skúli Sigurðs­son, for­maður fé­lags sjúkra­hús­lækna, sagði í gær að mikil ó­eining væri innan spítalans og sam­skipta­vanda­mál væru milli starfs­fólks og yfir­manna hans.

„Hann upp­lifir það svona. Ég verð nú að segja það að al­mennt upp­lifi ég mikla einingu meðal starfs­fólks og stjórn­enda. Á sex þúsund manna vinnu­stað, þar sem fólk er vel menntað og öflugt, með sterkar skoðanir - þá sýnist sitt hverjum,“ segir Páll.

Theó­dór sagði einnig að sam­skipta­erfið­leikar væru milli stjórn­enda spítalans og heil­brigðis­yfir­valda. Páll hafnar því og segist eiga í mjög góðu sam­starfi við heil­brigðis­yfir­völd og Svan­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra.

Upp­fært kl. 09:30

Land­­spítalinn hefur gefið frá sér yfir­­­lýsingu vegna um­­fjöllunar Morgun­blaðsins og segir þar að blaðið hafi ekki leitað skýringa eða óskað við­tals við stjórn­endur spítalans.

„Þetta er mis­skilningur. Rétt er að stöðu­gildi um 170 náms­lækna voru flutt til innan spítalans í maí 2020, frá sviðum og til skrif­stofu fram­kvæmda­stjóra lækninga og skýrir það þá aukningu sem dregin er fram. Þessir læknar störfuðu, og starfa enn jafn­mikið við sjúk­linga og lækningar eins og fyrir breytinguna. Um er að ræða mið­lægt utan­um­hald og skipu­lag m.a. vegna al­þjóð­legrar vottunar Royal College of Physicians í London sem er virtur sam­starfs­aðili í verk­efnum sem þessum víða um heim.

Sér­námið hefur getið sér gott orð og er for­senda bæði klínískrar þjónustu og mönnunar í lækningum til fram­tíðar. Því er hér um að ræða lækna í sér­námi sem stunda sitt starfs­nám á Land­spítala og hafa m.a. leikið lykil­hlut­verk í við­bragði spítalans í CO­VID far­aldrinum. Sér­náms­læknar sinna þannig ekki skrif­stofu­störfum heldur sér­námi sínu og klínískri vinnu á spítalanum.

Morgun­blaðið leitaði ekki skýringa eða við­tals við stjórn­endur við vinnslu fréttarinnar og kann það að skýra fram­setninguna.“