Deilt hefur verið um framkvæmdir listamannsins Páls Guðmundssonar á Húsafelli í um fimm ár. Sæmundur Ásgeirsson, eigandi gamla íbúðarhússins sem stendur nærri kirkjunni og listasmiðjum Páls, hefur ítrekað kært leyfi sem Borgarbyggð hefur gefið vegna umsvifa Páls.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nú fellt úr gildi byggingarleyfi sem byggingafulltrúinn í Borgarbyggð gaf út í maí í fyrra fyrir mannvirki sem áður var risið undir nafninu Legsteinasafn en heitir nú Legsteinaskáli.

Úrskurðarnefndin segir kærandann fullyrða að Páll hafi „fjarlægt steina í leyfisleysi úr kirkjunni þar sem þeir hafi verið geymdir og ekki fengið leyfi Minjastofnunar Íslands til flutninganna“. Vísi hann til yfirlýsingar starfsmanns Minjastofnunar um að ekki hafi verið veitt leyfi til að fjarlægja steinana af „sínum stað“ eins og skilyrt sé í lögum um menningarminjar.

Páll hafnar þessum ásökunum Sæmundar algerlega. „Listin er upphafin yfir slíkt þras,“ segir Páll sem kveðst eiga von á að málið leysist farsællega að lokum.

Engin umsókn borist

Ekki náðist í Sæmund Ásgeirsson en Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, sem gaf út áðurnefnda yfirlýsingu, segist ekki vita hvort legsteinar hafi verið færðir til í Húsafelli eða ekki.

„Við höfum ekki fengið neina umsókn um leyfi til að fjarlægja steina og vitum ekki hvort það hafi verið gert eða ekki,“ segir Agnes. Hún hafi aðeins verið að svara fyrirspurn um hvort leyfi hefði verið veitt til þess að fjarlægja steina.

Agnes segir að á það sé að líta að Minjastofnun hafi ekki verið sett á laggirnar fyrr en 2013. „Við vitum að það hafa verið teknir upp steinar í görðum löngu fyrir okkar tíma en í dag þyrfti leyfi,“ segir hún og vekur athygli á því að samkvæmt úrskurðarnefndinni segi kærandinn að legsteinarnir hafi verið fjarlægðir úr kirkjunni.

„Og kirkjan er náttúrlega ekki „sinn staður“ heldur er það kirkjugarðurinn. Það er óheimilt að taka steina úr kirkjugarði þar sem þeir voru settir upphaflega án leyfis. En ef þeir eru komnir annað er enginn sem bannar þér að færa þá til.“

Von um að sátt náist um skipulag

Lilja Björg Ágústsdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, segir það einlægan vilja sveitarfélagsins að samkomulag og sátt náist um skipulagið á svæðinu til frambúðar.

„Því verður unnið að því að gera breytingar á aðalskipulagi Borgarbyggðar af hluta lands Húsafells,“ segir Lilja. „Á Húsafelli eru fáeinar byggingar sem nýtast til landbúnaðarnota en hins vegar er ferðaþjónusta og menningartengd starfsemi fyrirferðarmikil á umræddu svæði og því mikilvægt að aðalskipulagið samræmist þeim áherslubreytingum.“

Að sögn Lilju hefur Borgarbyggð þegar boðað málsaðila á Húsafelli til fundar. „Það er gert til að tryggja að hagsmunasjónarmið allra aðila komi fram.“