Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins ætlar ekki að gefa kost á sér í prófkjöri flokksins í suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar sem fara fram næsta haust. Hann tilkynnti þetta á Facebook síðu sinni í dag.

Tilkynningin hefst á páskakveðju með mynd frá Eyjum.

„Og þótt það tengist ekkert upprisunni vil ég líka segja ykkur frá þeirri ákvörðun minni að láta þessi 5 ár sem ég hef verið á þingi duga í landsmálapólitíkinni í bili - og gefa ekki ekki kost á mér í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi í næsta mánuði," segir Páll í tilkynningu sinni.

Páll segist hafa komist að þessari niðurstöðu innra með sér um síðustu áramót en ákveðið að leyfa þremur mánuðum að líða ef eitthvað gerðist sem breytti þeirri niðurstöðu.

„Það gerðist ekki,“ segir Páll en segir ástæðuna ekki vera pólitíska heldur hafi hún á endanum verið persónuleg.

„Ég stóð frammi fyrir nákvæmlega sömu spurningu fyrir tæpum 5 árum og þá var svarið já. En nú hefur áhuginn einfaldlega dofnað - neistinn kulnað.“

„Ég stóð frammi fyrir nákvæmlega sömu spurningu fyrir tæpum 5 árum og þá var svarið já. En nú hefur áhuginn einfaldlega dofnað - neistinn kulnað.“

Páll rifjar upp að hann hafi tilkynnt fyrir nokkrum vikum að hann gæfi áfram kost á sér og skýrir hina breyttu afstöðu með því að þangað til ný ákvörðun sé tekin, gildi sú gamla.

Páll er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjöræmi og hafði gefið kost á sér áfram til forystu fyrir flokkinn. Hann hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2016. Hann hefur oft verið upp á kant við forystu flokksins og gjarnan brugðist mjög illa við því að hafa ekki fengið ráðherrastól í þeim tveimur ríkisstjórnum sem flokkurinn hefur átt aðild að þann tíma sem hann hefur setið á þingi.

Áður en Páll settist a þing starfaði hann lengst af í fjölmiðlum. hann var fréttamaður bæði á Rúv og Stöð 2 og gegndi ýmsum stjórnunarstöðum hjá þeim fyrirtækjum sem ráku Stöð 2 og Bylgjuna. Þá var hann Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins á árunum 2005 til 2013.

Kæru vinir og vandamenn! Með þessari kuldalegu páskadagsmynd úr brimrótinu hér í Eyjum sendi ég ykkur bestu...

Posted by Páll Magnússon on Sunnudagur, 4. apríl 2021