Páll Magnússon, fyrrverandi alþingismaður og útvarpsstjóri, skipar fyrsta sæti listans Fyrir Heimaey í Vestmannaeyjum fyrir kosningarnar í næsta mánuði. Hann segist þó ekki hættur að vera Sjálfstæðismaður því hann enn styðji flokkinn á landsvísu.
Fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu hans að kjörnefnd félagsins og núverandi bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, Íris Róbertsdóttir, hafi verið sammála um að best væri ef að það væri ekki sama manneskjan sem skipaði fyrsta sætið og væri bæjarstjóraefni listans.
„Hvað mig varðar er ég þakklátur og stoltur af því að vera treyst fyrir þessu verkefni og mun leggja mig allan fram um að gera góðan bæ enn betri. Reynsla mín og þekking úr stjórnmálunum mun væntanlega ekki síst nýtast í samskiptum og hagsmunagæslu bæjarins gagnvart ríkisvaldinu. Auk þess hef ég langa reynslu af rekstri stórra fjölmiðlafyrirtækja - bæði í einkageiranum og hinum opinbera,“ segir Páll í tilkynningunni.
Hann segir að sem Eyjamaður og fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis í fimm ár hafi hann fylgst vel með frammistöðu meirihlutans á kjörtímabilinu sem er að líða og að árangur þeirra sé aðdáunarverður. Hann segist vilja stuðla að því að þau fái að halda sínu góða starfi áfram.
Tilkynningin er í heild sinni hér að neðan.
Fram kemur á vef Fyrir Heimaey að Íris Róbertsdóttir, núverandi oddviti, sé bæjarstjóraefni listans en hún skipar þriðja sæti hans. Listann má sjá hér að neðan.