Páll Matthíasson hættir sem for­stjóri Land­spítala 11. októ­ber. Þetta kemur fram í til­kynningu frá spítalanum.

Þar segir að Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra hafi orðið við ósk Páls um að láta af starfi sínu. Guð­laug Rakel Guð­jóns­dóttir, fram­kvæmda­stjóri með­ferðar­sviðs Land­spítala, tekur við stöðu for­stjóra tíma­bundið til ára­móta að beiðni heil­brigðis­ráð­herra eða uns til skipað hefur verið í em­bættið að nýju. Páll mun verða nýjum for­stjóra innan handar næstu misseri.

Páll hefur gegnt starfi for­stjóra­starfinu í átta ár en var þar áður fram­kvæmda­stjóri geð­sviðs Land­spítala í fjögur ár.

„Land­spítali er risa­vaxinn vinnu­staður þar sem fengist er við öll flóknustu verk­efnin sem á reynir í heil­brigðis­þjónustu við lands­menn. Það er gríðar­mikið verk­efni að stjórna þessum spítala við venju­legar að­stæður, hvað þá við ein­hverjar erfiðustu að­stæður sem hugsast getur eins og í heims­far­aldri,“ segir Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra við þessi tíma­mót.

„Spítalinn hefur aldrei verið öflugri en nú með skýra heil­brigðis­stefnu og reynsluna af bar­áttunni við heims­far­aldur í far­teskinu. Fram undan eru á­skoranir á næstu árum, sam­fara gríðar­legri upp­byggingu sem þarf að haldast í hendur við trygga mönnun. Á þessum tíma­punkti tel ég því við­eig­andi að nýr for­stjóri taki við stjórn spítalans,“ segir Páll.

Guð­laug hefur gegnt starfi fram­kvæmda­stjóri með­ferðar­sviðs Land­spítala síðan haustið 2019. Hún er fædd árið 1961 og braut­skráðist sem hjúkrunar­fræðingur árið 1986 og starfaði sem slíkur í tíu ár. Hún hefur sinnt ýmsum stjórnunar­störfum, meðal annars í lyfja­geiranum, en einnig sem hjúkrunar­for­stjóri á St. Jósefs­spítala og sviðs­stjóri hjúkrunar á Land­spítala. Guð­laug Rakel er með MBA-gráðu og síðan bætt við sig þekkingu í lýð­heilsu­vísindum. Hún tók við starfi fram­kvæmda­stjóra bráða­sviðs spítalans við stofnun þess árið 2009 og gegndi síðan starfi fram­kvæmda­stjóra flæði­s­viðs árin 2014 til 2019.