Páll Jónsson, timburinnflytjandi á sjötugsaldri, einn sakborninga í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar segir þátttöku sína í málinu afar veigalitla og að hann hafi ekki haft neina aðkomu að skipulagningu innflutningsins. Aðkoma hans hafi aðeins falist í litlu afmörkuðu hlutverki og hann hafi ekki haft vitneskju um hlutverk annarra sem að málinu kunna að hafa komið.
Aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. janúar síðastliðinn og verður framhaldið 9. og 10. febrúar næstkomandi. Í upphafi aðalmeðferðar lagði dómari bann við umfjöllun fjölmiðla upp úr skýrslutökum sakborninga og vitna þar til þeim væri öllum lokið sem verður ekki fyrr en um miðjan febrúar. Frétt þessi er því einungis unnin upp úr greinargerð verjenda Páls, Unnsteins Arnars Elvarssonar lögmanns.

Tæp 100 kíló af kókaíni
Fjórmenningarnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því handtökunni þann 5. ágúst í fyrra. Páll í fangelsinu á Hólmsheiði en Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson á Litla Hrauni.
Þeim er líkt og fyrr hefur verið greint frá gefið að sök að hafa flutt inn tæp hundrað kíló af kókaíni auk peningaþvætti að upphæð samtals tæpum 63 milljónum króna. Við þingfestingu málsins í héraðsdómi í nóvember neituðu þeir allir ýmist sök eða neituðu að taka afstöðu til málsins.
Verjendur Jóhannesar Páls og Birgis skiluðu ekki greinargerð vegna málsins og því verður ekki fjallað um þeirra hlut í málinu fyrr en aðalmeðferð málsins lýkur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar.
Krefst vægustu refsingu
Páll krefst þess að vera sýknaður af ákæru fyrir þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi og að hafa ætlað efnin til sölu og dreifingar. Hann játar þó þátt sinn í tilraun til innflutnings með þeim fyrirvara að magn og styrkleiki hinna haldlögðu efna sé minna en ákæra segir til um 99,25 kíló og gerir Páll kröfu um vægustu refsingu sem lög leyfa í þeim efnum.
Páll segist ekki hafa vitað um magn og styrk efnanna og hafi ekki samið um neina sérstaka greiðslu í sinn hlut fyrir þátttöku sína í málinu. Hins vegar hafi hann haft óljósa hugmynd um að „gera ætti vel við hann“ fyrir hans þátt. Hans eina hlutverk í málinu hafi verið að annast flutning gámsins hingað til lands, annað ekki.
Engar sjálfstæðar ákvarðanir
Unnsteinn Örn Elvarsson, lögmaður Páls, segir meðal annars í greinargerðinni að gögn málsins beri það með sér að Páll hafi staðið undan meints hóps er skipulagði og fjármagnaði innflutninginn. Páll hafi ekki tekið neinar sjálfstæðar ákvarðanir í ferlinu og að hann hafi sífellt þurft að leita til annarra sakborninga málsins til að fá að vita hvernig hann ætti að bera sig að.
Það hafi gengið svo langt að aðrir ákærðu hafi séð um að útvega Páli símtæki, skipta um símkort, endurstilla og hreinsa símtækið. Þá sé ljóst samkvæmt gögnum málsins að Páll þekkir ekki til þeirra sem að baki málinu standi eða hópinn „strákana“ sem sífellt sé vísað til.
Of seint að hætta við
Í greinargerðinni kemur fram að Páll hafi verið í viðskiptum við aðra ákærða er hann flutti inn harðviðarhús í gámi í febrúar 2022. Í honum hafi ekkert saknæmt fundist. Síðan hafi átt að flytja inn annan gám, nú með trjádrumbum og að í þeim yrðu fíkniefni.
Páll hafi látið til leiðast og hann viðurkenni þann hlut í máli, að hann hafi tekið þátt í tilraun til innflutnings fíkniefna en þó án þess að gera sér grein fyrir magni og verðmæti. „Honum hafi fundist þetta spennandi og á sama tíma ekki talið sig geta hafnað viðkomandi enda væri búið að greiða honum þónokkrar upphæðir vegna áðurgreinds einingarhús eins og áður sagði.“
Páll hafi reynt að þræta fyrir að hann væri notaður sem milliliður í innflutningi fíkniefna en honum hafi verið tjáð að það væri of seint að falla frá verkefninu enda búið að fjárfesta í efninu og koma fyrir í staurum sem væru tilbúnir til innflutnings.
Gagnrýnir störf lögreglu
Unnsteinn Örn segir að með hliðsjón af því að Páll hafi aðeins haft afmarkað hlutverk í málinu og enga vitneskju um hlutverk annarra ásamt því að hann sé með hreina sakaskrá verði að stíga varlega til jarðar og varla tækt að fallast á að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða af hálfu ákærðu. Vísar hann einnig til hinna þriggja sakborninga málsins í þeim efnum.
Þá gerir Unnsteinn Örn sérstaka athugasemd við það að enginn fulltrúi lögreglunnar á Íslandi eða verjandi fyrir hönd hinna ákærðu hafi verið viðstaddur við haldlagningu, rannsókn, vigtun og sýnatöku á hinum meintu efnum sem haldlögð voru í Hollandi.