Páll Guðmundsson, listamaður, segist þakklátur öllum þeim sem lögðu sitt til svo sættir gætu náðst í deilumáli um legsteinasafnið á Húsafelli.

Til stóð að hefja niðurrif legsteinasafnhúss í gær í samræmi við niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands frá í fyrra en ekkert varð af því þar sem samkomulag náðist milli Borgarbyggðar, Páls og Sæmundar Ásgeirssonar, nágranna hans, á elleftu stundu.

Í færslu sem hann deilir á Facebook í dag þakkar Páll öllum vinum sínum sem studdu hann í þessu máli og þá sem sendu sér kveðjur á síðastliðnum dögum.

„Ég þakka sveitarstjórn Borgarbyggðar fyrir að vinna að sáttum. Síðast en ekki síst þakka ég Sæmundi eiganda Gamla Bæjar fyrir að rétta fram sáttarhönd á ögurstundu. Ég lít svo á að við séum öll sigurvegarar í þessu máli og getum nú gengið heil að okkar verkum,“ segir Páll í færslu sem má sjá hér að neðan.