„Við erum níu Palestínu­menn sem var vísað á götuna í síðustu viku af Út­lendinga­stofnun,“ segir í yfir­lýsingu frá flótta­mönnum sem Út­lendinga­stofnun svipti fæði og hús­næði í síðustu viku eftir að þeir neituðu að fara í COVID-19 próf svo það væri hægt að flytja þá til Grikklands þar sem þeir eru fyrir með alþjóðlega vernd.

Þeir segja að þeir hafi allir komið til landsins síðasta sumar frá Grikk­landi.

„Við flúðum stríð og fá­tækt til að finna okkur betra líf í Evrópu. Við komum til Grikk­lands þar sem við vorum neyddir til að skrá fingra­far okkar og lokaðir inni í flótta­manna­búðum,“ segja þeir og að eftir að hafa þjáðst í Grikk­landi í um eitt og hálft ár hafi þeir loks fengið pappíra þar sem hafi gert þeim kleift að ferðast burt þaðan.

„Við þoldum þjáningar og kyn­þátta­for­dóma sem við höfðum ekki upp­lifað áður frá bæði lög­reglunni og grískum al­menningi, og ein­hverjir upp­lifðu pyntingar og móðganir,“ segir í yfir­lýsingunni.

Slæmur aðbúnaður í Grikklandi

Þeir segja að­búnaðinn í Grikk­landi hafa verið veru­lega slæman. Þeir bjuggu í tjöldum, hafi ekki haft greitt að­gengi að raf­magni eða hreinu vatni og hafi verið í miðjum skógi.

„Á veturna var mjög kalt og gríðar­lega heitt á sumrin. Sjúk­dómar og skor­dýr dreifðu sér um flótta­manna­búðirnar og maturinn sem við fengum var alltaf út­runninn. Við fengum ekki neina heil­brigðis­þjónustu eða önnur réttindi. Oft réðust grísk gengi á okkur og lömdu okkur og brenndu tjöldin okkar. Lög­reglan gerði ekkert nema að horfa. Við komumst úr hel­vítinu á Gasa til að finna enn stærra hel­víti í Grikk­landi,“ segir í yfir­lýsingunni.

Þeir segja að um leið og þeir fengu pappíra um vernd í Grikk­landi hafi þeir misst stuðning og endað á götunni.

„Við sváfum á götunni því við fundum ekkert hús­næði og að lokum yfir­gáfum við Grikk­landi og fórum til annarra landa. Frá Evrópu komu sumir til Ís­lands. Við vorum glaðir að losna úr „gríska fangelsinu“. Okkur var vel tekið í byrjun og vel var komið fram við okkur. við fengum hús­næði og að­gengi að heil­brigðis­þjónustu,“ segja þeir.

Eftir að hafa verið hér í ein­hvern tíma segjast þeir hafa fengið þær fregnir frá Rauða krossinum að þeir væru öruggir og að brott­vísunum hafi verið hætt til Grikk­lands. Það hafi því komið þeim á ó­vart þegar Út­lendinga­stofnun neitaði þeim um dvalar­leyfi vegna stöðu þeirra í Grikk­landi. Þeir hafi á­frýjað því en það hafi ekki skilað þeim neinu og niður­staðan sé enn sú að þeir þurfi að snúa aftur til Grikk­lands.

„Þau skoðuðu ekki málið okkar eða hver staða okkar er þar eða mögu­leiki okkar á lífi þar,“ segir í yfir­lýsingunni.

Þeir segja að frá því hafi líðan þeirra versnað með hverjum deginum sem leið og þeir orðnir kvíðnari, þung­lyndari og hræddari. Þeir spyrji sig oft að því af hverju þeir megi ekki vera hér á­fram.

„Við fæddumst í stríði og gengum í gegnum barn­æsku okkar við hljóðin af sprengjum og byssu­skotum. Við horfðum á þau látnu og þau særðu. Þetta er okkar barn­æska. Við ó­lumst upp í stríði og á­tökum. Við höfum aldrei fengið tæki­færi á að búa við frið eða stöðug­leika, heldur alltaf ótta, dauða, fá­tækt, hungur og of­sóknir,“ segja þeir.

Þeir segja að þeir hafi komið hingað í leit að betra lífi.

„Við erum í leit að fram­tíð sem hefur verið okkur týnd í mörg ár. Það vill enginn fara frá heima­landi sínu, en kring­um­stæðurnar neyddu okkur til þess.“

Mennirnir hafa ein­hverjir lokið menntun og vilja fá tæki­færi til að vinna við það sem þeir lærðu á meðan aðrir vilja tæki­færi til að mennta sig og leggja sitt af mörkum til sam­fé­lagsins.

Þeir segja að lokum að þeir óski þess að ís­lensk yfir­völd endur­skoði á­kvörðun sína um að brott­vísa þeim aftur til Grikk­lands.

„Við vonum að ís­lenska þjóðin og ís­lenska ríkis­stjórnin endur­skoði mál okkar og gefi okkur tæki­færi á að búa hér á­fram.“

Mohammed Bakri, einn mannanna, sendi Fréttablaðinu yfirlýsinguna fyrir hönd þeirra allra.