Hluti af sendingunni sem barst til bandaríska sendiráðsins við Engjateig í Reykjavík hefur nú verið sendur til rannsóknar hjá Háskóla Íslands en ekki liggur fyrir hvaða deild innan háskólans skoðar hana.

Þetta staðfestir Gunnar Hörður Garðarson, sam­skipta­stjóri rík­is­lög­reglu­stjóra í samtali við fréttastofu. Ekki er vitað hvert innihald sendingarinnar var en lögregla telur sig hafa vísbendingar um það.

„Það eru ákveðnar hugmyndir um það en það er ennþá ekki hægt að tjá sig um það á meðan það liggur ekki fyrir. Það er hluti af því sem við erum að láta Háskóla Íslands rannsaka fyrir okkur,“ segir Gunnar Hörður.

Ekki liggur heldur fyrir hvaðan sendingin kom en það er nú til rannsóknar hjá lögreglu að sögn Gunn­ars Harðar.

„Það er eitt af því sem er til rannsóknar eins og stendur og önnur atriði sem við getum ekki tjáð okkur um á þessu stigi málsins,“ segir Gunnar Hörður sem segir að atburðir eins og þessi komi fyrir reglulega.

„Þetta er eitthvað sem gerist reglulega í sendiráðum víða um heim að það komi svona sendingar sem eru grunsamlegar,“ segir hann.

Engum varð meint af

Allt fólk sem kom við sendinguna í var sent á Landsspítalann til rannsóknar en engum varð meint af að sögn Gunnars Harðar.

„Ég veit ekki betur en svo sé. Við fengum engar aðrar upplýsingar en að það væri í góðu lagi með þetta fólk og að þetta væri öryggis vegna sem þau voru send til skoðunar,“ segir Gunnar Hörður

Mikil viðbúnaður

Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar voru með talsverðan viðbúnað á svæðinu í dag og voru fjöldamargir lögreglubílar á svæðinu. Umferð um svæðið var einnig lokað.

„Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins ásamt sérfræðingum á vegum ríkislögreglustjóra úr sérsveit sem einnig eru sprengjusérfræðingar voru kallaðir á vettvang við rannsókn málsins,“ staðfestir Gunnar Hörður sem segir málið alvarlegt.

Viðbragðsaðilar ræða saman á vettvangi.
Fréttablaðið/ValgarðurGíslason

„Við tökum allt svona alvarlega. Við förum ekki í svona viðbúnað nema við metum að til þess þurfi og auðvitað er það alvarlegt. En það kom mjög fljótt í ljós að það var ekki um verulega hættu á ferð og þá var dregið strax úr viðbúnaði,“ segir Gunnar Hörður og bætir við „viðbúnaðurinn er mikill þegar grunur er um hætta eins og þessi sé til staðar,“

Að sögn Gunnars Harðar var sendiráðið aldrei rýmt og fór fljótlega allt í sama farveg eftir að aðgerðir hófust. „Aðgerðinni lauk um þrjú leitið eða um það leiti sem fréttatilkynning var send út,“ segir Gunnar Hörður.