„Ég man lyktina, ég man umhverfið, ég man hljóðin, ég man birtuna. Þetta er alveg greypt í mér,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður um stærsta áfall sitt í æsku, þegar honum var nauðgað. Það var árið 1986 eða „árið sem ég dó“, segir Sævar.

Hann og eiginmaður hans, Lárus Sigurður Lárusson eru í viðtali á Fréttavaktinni í kvöld á Hringbraut vegna nýrrar bókar þeirra um Sævar.

Lárus Sigurður Lárusson og Sævar Þór Jónsson á Fréttavaktinni í kvöld. Lárus dró Sævar að landi með bókaskrifin og komst að myrkum minninugm eiginmannsins.
Mynd/Hringbraut

Í bókinni Barnið í garðinum, segir Sævar Þór frá því hvernig hann upplifði hrottafengið ofbeldi æskuáranna og lifði það af. Hvernig hann með þjáningu og þrautseigju sneri martröð og sársauka upp í kærleika og bjartara líf. Sævar gafst þó upp á bókinni á tímapunkti, fannst efnið yfirþyrmandi og Lárus dró mann sinn að landi að lokum. „Þetta er náttúrulega mikilvæg saga sem þarf að segja, það er ekki til mikið af bókum þar sem verið er að segja svona áfallasögu karlmanns“, segir Lárus.

„Ég man lyktina, ég man umhverfið, ég man hljóðin, ég man birtuna. Þetta er alveg greypt í mér“

Mynd/JPV

Sævar Þór bjó við andlegt ofbeldi og vanrækslu og mikinn alkóhólisma á heimili sínu og átti seinna sjálfur eftir að glíma við mikla áfengissýki.

„Það voru ýmsar vangaveltur gagnvart fjölskyldu minni um hvort ég ætti að gefa út þessa bók,“ segir Sævar Þór en fjölskyldan hafi verið í afneitun um þessa sögu.

„Ég elst svo sem bara upp við eðlilegt umhverfi á þessum tíma, foreldrar mínir voru bara venjulegt verkafólk sem vann mikið og átti bara við sína erfiðleika að stríða, ég bara bjó við eðlilegar aðstæður að ég hélt“, útskýrir Sævar Þór og álasi foreldrum sínum ekki fyrir neitt og þau hafið verið hluti af ákveðnum tíðaranda með helgardrykkju og öðru.

Má ekki vera hetjusaga

Hann hlífir þó engum af sínum nánustu. „Enda er ekki hægt að segja þessa sögu öðruvísi því annars yrði þetta bara einhver hetjusaga sem hún á ekki að vera, heldur saga sem er fordæmi og miðlar öðrum til hjálpar,“ segir hann.

Lárus lærði mikið nýtt um líf og æsku eiginmanns sinn við að klára bókina með honum eftir tvo áratugi saman. „Það var ekki fyrr en hann byrjar að vinna í þessari bók sem að hann fer að getað talað um þetta ofbeldi sem hann varð fyrir í æsku“.

„Það var mjög erfitt,“ segir Lárus um að heyra í fyrsta sinn um dimma reynsludali eiginmanns síns.

Frásagnir karla sem þolendur kynferðislegs ofbeldis eru fáar ítrekar Lárus. „það hefur alltaf verið mjög mikil þöggun um það og það er einhvern veginn innstillt í karlmenn líka að segja síður frá, þeir eiga bara að vera sterkara kynið og vera sterkir öruggir og þola allt.“

„Pakkaði barninu saman" eftir nauðgunina

Það var árið 1986 sem Sævar var sem barn lokkaður inn í skemmu við JL húsið og nauðgað af tveimur karlmönnum og konu sem var gerandi með körlunum. Eftir það segist hann hafa „pakkað saman barninu“ sem hann var og „dáið“.

Sævar Þór segir að eðlilega reyni fólk að fenna yfir áföllin en það gangi þó ekki og öll skynfæri geymi hið hryllilega ofbeldi „Og haft áhrif á mig, allt mitt líf, meira en ég hef þorað að viðurkenna.“

Bókin Barnið í garðinum kemur út á morgun, útgefin af JPV. Þar er nístandi sárauka barnæsku Sævars Þórs lýst og lífsháska mannsins sem lifir við áföllin á fullorðinsárum. Fortíðin heldur honum í heljargreipum og hann hefur í áraraðir hrærst i heimi óreglu og lyga þar til hann strandar og rís svo upp.

Báðir starfa þeir Sævar Þór og Lárus sem lögmenn, reka saman lögmannsstofu og eiga saman lítinn son.