Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 4. febrúar 2023
12.20 GMT

Brynjólfur H. Björnsson hefur staðið vaktina í byggingavöruversluninni Brynju á Laugavegi síðan á sjötta áratugnum en í vikunni afhenti hann nýjum eigendum húsnæðisins lyklavöldin.

„Það er ekki búið að ákveða hvað verður, þau hjónin sem keyptu ætla bara að taka húsið í gegn og sjá svo hvað verður,“ segir hann.

Aðspurður hvernig tilfinningin við að afhenda lyklana hafi verið, svarar Brynjólfur:

„Hún er mjög skrítin, eftir 60 ár þarna. Þetta er búið að vera ævistarfið enda byrjaði ég að vinna í Brynju 26 ára. Ég hef alltaf kunnað vel við mig í miðbænum en það hefur orðið mikil breyting á honum miðað við það sem var fyrir 30–40 árum. Lífið var þarna. Það finnst mér hafa breyst mikið.“


„Ég hef alltaf kunnað vel við mig í miðbænum en það hefur orðið mikil breyting á honum miðað við það sem var fyrir 30–40 árum. Lífið var þarna. Það finnst mér hafa breyst mikið."

Brynjólfur


Brynjólfur hafði staðið vaktina í versluninni Brynju í 60 ár og segir Miðbæinn hafa breyst mikið, ekki endilega til hins betra. Mynd/Bryndís Ragna
Brynjólfi hélst vel á starfsfólki í versluninni og hér er hann með þremur fyrrum starfsmönnum, þeim Birni G. Snæbjörnssyni, Haldori Haldorsen og Hafsteini Guðmundssyni. Mynd/Bryndís Ragna

Eitt sem hefur breyst er fjöldi ferðamanna í miðbænum en þeir létu Brynju ekki fram hjá sér fara.

„Það var alltaf nóg að gera og útlendingarnir komu mikið líka og voru hrifnir. Bretar, Ameríkanar og Kanadamenn höfðu það á orði hversu gott það væri að koma inn í svona búð eins og var í þeirra heimalandi í gamla daga, nú væri allt komið í stórverslanir og moll. Þetta fannst þeim alvöru búð.“

Innviðir verslunarinnar Brynju var sannarlega minnisvarði um horfna tíma. Mynd/Bryndís Ragna

Áratuga safn af skjölum


Verslunin var upphaflega auglýst til sölu en þegar ekki tókst að finna kaupanda að rekstrinum var honum hætt.

Matthildur, elsta dóttir Brynjólfs, og eiginmaður hennar tóku við vefverslun Brynju.

„Þau ætla að fikra sig áfram í þessu. Netverslunin hefur alltaf mallað með og Matta hefur starfað hjá mér í bókhaldi og þekkir þetta að megninu til,“ segir Brynjólfur sem ætlar að vera þeim til halds og trausts til að byrja með.

Brynjólfur segir það hafa verið ánægjulegt að hafa Bryndísi dóttur sína með sér í nokkrar vikur í nóvember.

„Það var einnig mikil hjálp enda fór hún í gegnum skúffur og annað sem þurfti að taka til í. Það var eitthvað minna hent í gegnum árin en hefði kannski þurft,“ segir hann í léttum tón.

„En þeir voru alla vega ánægðir hjá Borgarskjalasafninu þegar þeir komust í kassana uppi á lofti,“ en bókhaldið og fleira fór til varðveislu þar.


„En þeir voru alla vega ánægðir hjá Borgarskjalasafninu þegar þeir komust í kassana uppi á lofti."

Brynjólfur


Á háalofti verslunarinnar mátti finna áratuga safn af bókhaldi og fleiru sem fór í kassavís á Borgarskjalasafnið. Mynd/Bryndís Ragna
Brynjólfur vann sex daga vinnuviku allan starfsferilinn og stefnir nú á að njóta laugardaganna með eiginkonunni, Rögnu Láru. Mynd/Bryndís Ragna

Eins og fyrr segir afhenti Brynjólfur lyklana í vikunni og lokar þar með löngum og farsælum kafla. Fram undan eru önnur hugðarefni.

„Konan mín, Ragna Lára Ragnarsdóttir, er ánægð með að hafa mig heima á laugardögum framvegis,“ segir Brynjólfur sem undanfarna áratugi hefur unnið sex daga vinnuviku.

Gott að fá að vera til staðar


Bryndís Ragna Brynjólfsdóttir, ein þriggja dætra Brynjólfs, hefur verið búsett í Rotterdam frá árinu 2000 þangað sem hún fór til að dansa hjá Scapino Ballet Rotterdam.

„Í dag dansa ég af og til en er líka mikið að kenna bæði hjá dansflokknum hérna í Hollandi og í listaháskólanum,“ segir Bryndís sem útskrifaðist úr ljósmyndanámi frá De Koninklijke Academie van Beeldende Kunsten í Haag árið 2022.

Í nóvember síðastliðnum kom Bryndís heim til Íslands til að hjálpa föður sínum að hreinsa út úr húsnæði Brynju og hafði myndavélina með.

„Engu hefur verið hent frá því búðin opnaði og var margt mjög vel varðveitt, eins og til dæmis allt bókhald og viðskiptasamskiptin öll varðveitt í röð og reglu.

Háaloftið var fullt af pappírum og skjölum og kjallarinn fullur af alls konar dóti. Þar gleymdi ég mér alveg í ryki og drullu.

En það var alveg magnað að fá að fara í gegnum þetta allt. Það er svo mikil saga og sál sem geymdist þarna.“


„En það var alveg magnað að fá að fara í gegnum þetta allt. Það er svo mikil saga og sál sem geymdist þarna.“

Bryndís Ragna


Bryndís Ragna segist hafa gleymt sér tímunum saman á háaloftinu þar sem mikil saga og sál geymdist. Mynd/Bryndís Ragna

Bryndís segist þakklát fyrir að hafa getað varið þessum tíma með föður sínum og tekið þátt í hans rútínu dag hvern.

„Við vöknuðum þá klukkan sex til að fara í Laugardalslaugina. Keyra saman í myrkrinu hlustandi á RÚV, fara í útiklefa, synda nokkrar ferðir, fara í heita pottinn og kalda og svo upp úr.

Fyrir klukkan átta vorum við svo komin upp í búð. Þá var unnið til tólf, þá smá matur, oftast afgangar frá deginum áður, og svo haldið áfram þangað seinnipart dags.

Mér fannst mjög gott að fá að vera til staðar, þar sem ég er búin að búa í Hollandi í 27 ár, eða frá því ég var 17 ára gömul og hef aldrei fengið að vera svona mikið með pabba.“

Bryndís Ragna kom gagngert heim frá Hollandi þar sem hún hefur búið í 27 ár, til að verja tíma með föður sínum og skrásetja síðustu vikurnar í Brynju. Mynd/Bryndís Ragna
Hádegismatur alltaf klukkan tólf, oftast afgangur frá deginum áður. Mynd/Bryndís Ragna
Bryndís Ragna segist þakklát að hafa getað varið dýrmætum tíma með föður sínum á þessum tímamótum. Mynd/Bryndís Ragna

Tár þegar innréttingin fór niður


Bryndís segir það þó hafa tekið á að horfa á Brynju hverfa smám saman.

„Þegar öll búðarinnréttingin var tekin niður voru jafnvel vinnumennirnir næstum í tárum eins og við. Pabbi reyndi allt í sínu valdi til að koma öllu til einstaklinga eða fyrirtækja svo hlutirnir myndu lifa áfram. Sagan haldi áfram annars staðar.“

Bryndís var með símann og myndavélina uppi við allan tímann.

„Pabbi heldur sér mjög sterkum en við vitum öll að tárin eru að innan. Það reif oft í að sjá pabba ganga í gegnum þetta, en það var líka mjög flott og ég er virkilega stolt af honum.“


„Það reif oft í að sjá pabba ganga í gegnum þetta, en það var líka mjög flott og ég er virkilega stolt af honum.“

Bryndís Ragna


Brynjólfur starfaði í Brynju í 60 ár og fann Bryndís Ragna þessa gömlu mynd af honum þegar hún var að hreinsa til í húsnæðinu.

Bryndís segir föður sinn helst koma til með að sakna viðskiptavinanna, fólksins.

„Hann elskaði að vera niðri í búð, tala við fólk og heyra sögur, um lífið og tilveruna. Hann þekkir alla og veit margt um margt úr alls konar geirum. Hann hlustaði á fólkið.

Ég held það segi líka mikið að allt starfsfólkið sem vann í Brynju vann þar í mörg ár. Þeim leið þar vel.“

Athugasemdir