Að minnsta kosti 110 létust í sjálfsmorðssprengjuárásinni á alþjóðaflugvöllinn í Kabúl á fimmtudaginn og enn fleiri særðust. Þrettán hinna látnu voru bandarískir hermenn og Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að ná fram hefndum á þeim sem skipulögðu árásina. „Við munum ekkert fyrirgefa,“ sagði hann í ávarpi á föstudaginn. „Við munum engu gleyma. Við munum klófesta ykkur og láta ykkur borga.“

Landsdeild íslamska ríkisins í Afganistan lýsti árásinni á hendur sér. Mikill mannfjöldi hefur safnast saman á flugvellinum þar sem bæði Afganir og erlendir ríkisborgarar reyna nú að sleppa frá landinu vegna endurkomu talíbana á valdastóla. Talíbanar lögðu undir sig landið á mjög skömmum tíma eftir að Bandaríkjamenn hófu að draga her sinn frá Afganistan og hertóku Kabúl þann 15. ágúst. Áætlað er að síðustu bandarísku hermennirnir hverfi frá landinu þann 31. ágúst og því eru Bandaríkjamenn í kapphlaupi við tímann til að forða ríkisborgurum sínum og afgönskum bandamönnum frá Afganistan áður en talíbanar grípa til hefndaraðgerða.

Auk þeirra sem hafa fjölmennt á flugvöllinn hafa hundruð þúsunda Afgana flúið yfir landamærin við Pakistan af ótta við væntanlega ógnarstjórn talíbana. Pakistanar hyggjast ekki taka við afgönskum flóttamönnum nema þeir séu í leit að læknishjálp eða geti sýnt fram á lögheimili í landinu.

Samkvæmt yfirlýsingu bandaríska varnarmálaráðuneytisins eru enn um 5.400 manns á flugvellinum í Kabúl sem bíða þess að komast með flugi frá landinu.