Pakistönsk yfirvöld meinuðu Indlandsforseta að fljúga í gegnum lofthelgi Pakistan á leið hans til Íslands. Þetta kemur fram á indverska fréttavefnum India Today.

Ram Nath Kovind, forseti Indlands, lenti á Keflavíkurflugvelli skömmu eftir fimm í morgun. Forsetinn er hér í opinberri heimsókn og mun hann funda með forseta Íslands á morgun og forsætisráðherra á miðvikudag. Ísland er fyrsta norræna landið sem Kovind heimsækir sem forseti.

Eftir heimsóknina fer Kovind til Sviss og Slóveníu.

Mikil spenna ríkir á milli ríkjanna vegna átaka um Kasmírsvæðið og hefur fjármálaráðherra Indlands heitið því að einangra Pakistan frá umheiminum. Ind­verj­ar saka Pak­ist­an um að taka ekki nógu harkalega á hryðjurverkasamtökunum Jaish-e-Mohammed, sem lýst hafa yfir ábyrgð á sprengju­árás sem varð 46 ind­versk­um her­mönn­um að bana í Kasm­ír síðastliðinn febrúar.

Í kjölfarið réðust indverskar orrustuþotur að skotmörkum í Kasmír héraðinu innan svæðis sem Pakistanar gerðu tilkall til í febrúar.

Kasmír liggur í skugga hárra fjalla og þykir héraðið mikilvægt vegna orku og menningar og er það einnig hernaðarlega mikilvægt. Úr jöklum Kasmír rennur ferskt vatn, lífsnauðsyn fyrir íbúa á þurrum svæðum í Pakistan og á Indlandi.

Ríkin tvö hafa tekist á um Kasmír allt frá því Indlandi var skipt upp á milli hindúa og múslima, þegar breska heimsveldið lét landið af hendi á sínum tíma.