Frans páfi hafnaði í gær afsögn franska kardinálans Phillipe Barbarin. Kardinálinn var sakfelldur fyrr í mánuðinum fyrir að hylma yfir kynferðisbrot prestsins Bernard Preynat gegn drengjum á níunda og tíunda áratugnum. Eftir sakfellinguna sagðist Barbarin ætla að bjóða páfa afsögn sína en eins og áður segir hefur páfi nú hafnað henni.

Barbarin sendi út yfirlýsingu um málið í gær og sagði að páfi hefði þó ráðlagt sér að stíga til hliðar tímabundið. „Hann gaf mér frelsið til þess að taka bestu mögulegu ákvörðunina fyrir söfnuðinn í Lyon,“ sagði í yfirlýsingu kardinálans.

The New York Times hafði eftir Anne Barrett Doyle, stjórnanda samtakanna Bishop Accountability, að ákvörðun páfa væri áminning um að páfa sé sama um þolendur. „Nú sem fyrr stendur Frans með meðsekum biskup og hlustar ekki á vitnisburð þolenda.“ –