Gunn­laugur M. Sig­munds­son, fyrr­verandi þing­maður og faðir Sig­mundar Davíðs, er afar ó­sáttur við yfir­lýsingu sem Fé­lag sér­kennara sendi frá sér á dögunum og hefur sent fé­laginu tölvu­póst þess efnis. Yfir­lýsingin varðaði ranga skráningu á vef Al­þingis þar sem Anna Kol­brún Árna­dóttir, þing­maður Mið­flokksins, er sögð hafa starfað sem rit­stjóri Glæða, fag­tíma­rits sér­kennara. 

„Það eina sem ég vil segja um þetta er að þetta var mjög ó­við­eig­andi tölvu­póstur,“ segir Sæ­dís Ósk Harðar­dóttir, rit­stjóri Glæða og for­maður Fé­lags sér­kennara. 

Sæ­dís segir stjórnina ætla að hittast eftir helgi vegna málsins. Að­spurð kveðst hún ekki hafa svarað tölvu­skeytinu. 

„Hann er ekki svara­verður,“ segir hún. 

Sjá einnig: Anna greindi satt og rétt frá

Sparkað í liggjandi manneskju

Gunn­laugur segir í sam­tali við Frétta­blaðið að fé­lagið hafi með yfir­lýsingu sinni til fjöl­miðla sparkað í liggjandi mann­eskju. 

Hann vísar til þess að Anna Kol­brún hefur glímt við krabba­mein um nokkurt skeið, eða frá árinu 2011, þegar hún greindist með meinið í brjósti. Ný­verið varð ljóst að krabbinn hefur dreift sér um nær allan líkamann og hefur Anna verið í lyfja­með­ferð vegna veikinda sinna. 

„Al­mennt talað í dýra­ríkinu er þetta þannig, og þeir sem þekkja hænsna­bú vita, að ef ein­hver hæna er veik þá fara allar hinar hænurnar að ráðast á hina veiku. Og mér finnst bara að við mann­fólkið þurfum ekki að haga okkur eins,“ segir hann. 

„Þarna er mjög mikið veik kona og þá kemur allt þetta lið sem er búið að hafa mánuði til þess að gera at­huga­semdir. En núna, vegna þess að hún liggur veik fyrir, þá er þetta eins og í hænsna­búi; ráðist á hana og kroppað og kroppað og kroppað,“ bætir Gunn­laugur við en hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar. 

„Ég hef ekkert meira um þetta að segja. Mér finnst bara leiðin­legt þegar mann­skepnan er orðin eins og hænsna­bú.“

Enginn póstur til þroskaþjálfa

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis, upp­lýsti í síðustu viku að ekki væri við Önnu Kol­brúnu að sakast vegna skráningar hennar á vef Al­þingis. Þvert á móti liggi á­byrgðin hjá skrif­stofu Al­þingis því þing­maðurinn hafi veitt réttar upp­lýsingar í einu og öllu. 

Enginn tölvu­póstur barst Fé­lagi þroska­þjálfa frá Gunnlaugi vegna yfir­lýsingar þeirra um að Anna Kolbrún hefði notað starfsheitið þroskaþjálfií æviágripi sínu, sam­kvæmt upp­lýsingum frá fé­laginu. Stjórn Fé­lags sér­kennara hyggst funda vegna málsins eftir helgi. 

Fjórir þing­menn Mið­flokksins; Sig­mundur Davíð, Anna Kol­brún, Gunnar Bragi Sveins­son og Berg­þór Óla­son hafa verið tals­vert til um­fjöllunar síðustu daga vegna Klausturs­málsins svo­kallaða. Gunnar Bragi og Berg­þór eru komnir í ó­til­greint leyfi frá þing­störfum vegna málsins.

Uppfært:

Sædís Ósk hjá Félagi sérkennara vill koma því á framfæri að félaginu hafi borist ábending um ranga skráningu þingmannsins á vef Alþingis, og að þar af leiðandi hafi yfirlýsingin verið send út. Enginn félagsmanna liggi yfir skráningum þingmanna. „Við höfum margt betra við tíma okkar að gera,“ segir Sædís.