„Pabbi dó fyrir akkúrat ári síðan á fimmtudaginn, 28. júlí 2020, og ég átti versta dag lífs míns,“ segir Róbert Gíslason, tónlistarmaðurinn Royal, sem lagði erfiðasta ár sem hann hefur upplifað að baki á fimmtudaginn með útgáfu lagsins Gat ekki meira.

„Það er ekki hægt að segja annað en að þetta er klárlega búið að vera erfiðasta árið sem ég hef upplifað hingað til,“ segir Róbert sem hafði þó marga fjöruna sopið áður en hann fann föður sinn látinn og meðal annars glímt við álíka mein og drógu föður hans að lokum til dauða.

Í sprengjulosti

„Þennan dag hrundi ekki bara heimurinn minn gersamlega. Heldur hrundi bara allur heimurinn á svo óhuggulegan hátt að það eigin­lega bara … ég get ekki alveg lýst því,“ heldur Róbert áfram eftir stutt hik. „Allt gjörsamlega bara hrundi og ég fann fyrir mikilli breytingu, einhvern veginn, bara á því hvernig ég upplifði allt. Ég var í sjokki bara.
Ég var eins og í sprengjulosti að því leyti að skelin mín var svoleiðis hrist og allt inni í henni í henglum. Ég held að kannski svona fyrstu fjóra mánuðina hafi ég bara verið í „shell shock“ eins og hermenn lýsa. Þótt maður beri þetta ekkert saman. Ég hef aldrei verið í neinu stríði,“ segir Róbert.

„Óhuggulegast finnst mér að ég gerði mér í rauninni ekkert grein fyrir hvað ég var virkilega hristur. Ég var eiginlega bara sannfærður um að ég væri að höndla þetta mjög vel og fékk svona einhverja ábyrgðartilfinningu,“ segir Róbert sem einhvern veginn beit það í sig að hann yrði að höndla áfallið vel.

„Ég veit ekki af hverju en mér fannst að ég ætti sko að taka vel á þessu og vera til staðar fyrir fjölskylduna mína og hitt og þetta. Ég hélt að þetta sjokkástand væri varanleg breyting á mér. Þetta væri bara nýi ég. Ég fann fyrir samkenndarleysi og óhuggulega miklu skilningsleysi gagnvart öllum. Þar kemur líka sjálfsvorkunnin inn og alls konar. Mikil reiði, gremja og alls konar þungar, miklar og dramatískar tilfinningar.“

Gat ekki meira

Róbert var enn í áfalli þegar lagið Gat ekki meira, sem hann gaf út á dánardegi pabba síns, kom einhvern veginn til hans tveimur mánuðum eftir að Gísli Rúnar lést. Hann segir síðan vinnuna við það hafa hjálpað honum mikið að vinna úr áfallinu og sorginni.

„Ég hef náttúrlega alltaf notað listina til að takast á við lífið og lagið hjálpaði mér mikið. Algjörlega og mér fannst einhvern veginn alveg skýrt að þetta kom bara til mín eins og upp úr þurru. Ég veit ekki hvað ég á að kalla það, skilaboð, orku eða hvað sem það var,“ segir Róbert og leggur áherslu á að þetta sé ekki eitthvað sem hann sé vanur.

„Ég er búinn að vera að búa til og semja tónlist og texta síðan ég var allavegana 14 eða 15 ára gamall og þetta hefur ekki gerst svona áður. Sérstaklega vegna þess að ég var svo sannarlega ekki fær um að vinna neitt skapandi á þessum tíma. En þetta kom bara einn góðan veðurdag.“

Biður um skilning

Róbert segist dálítið vera að tala við pabba sinn í fyrra versi lagsins en í því seinna hafi hann viljað reyna að gefa látnum föður sínum rödd. „Seinna versið er í rauninni bara ákall um að honum sé sýndur skilningur. Skilningur sem mér finnst skorta óhuggulega í öllum samfélögum. Bæði hérna og úti í heimi er mikið um fordóma og fáfræði og þessir fordómar eru meiðandi. Skilningurinn er bara einhvern veginn rosalega lítill og ég skil það svo sem alveg en það breytir því ekki að ég upplifi þetta mikið.“

Róbert segist aðspurður eiga við fordóma gagnvart bæði sjálfsvígum og í garð þeirra sem kljást við andleg veikindi. „Og yfirhöfuð gagnvart raunveruleika þeirra sem eru að berjast við til dæmis geðhvörf, kvíða eða alkóhólisma, eins og pabbi var að berjast við alla sína ævi.“

Lamandi kvíði

Róberti finnst hann hafa öðlast mikinn skilning á aðstæðum fólks sem líður slíkar þjáningar innra með sér að það sjái enga aðra leið færa en að gefast endanlega upp. Hann hafi hins vegar ekki byrjað að skilja fyrr en hann fékk að kynnast þessu á eigin skinni.

Hann hafi þjáðst af miklum kvíða frá því hann var barn. „En hann varð mjög alvarlegur miklu síðar. Til dæmis þegar ég fór að fikta við fíkniefni og tók mínar dýfur sem hafa svo sannarlega ekki hjálpað með kvíðann.

Margt líkt með skyldum

Þá fékk ég líka einhvern veginn töluvert meiri skilning fyrir pabba. Bara hvernig karakter hann var og hvernig honum leið. Ég fór líka að skilja hann betur vegna þess að við vorum svo ótrúlega líkir um margt fleira en bara andlitið sem ég geng með,“ segir Róbert sem er í raun svo sláandi líkur pabba sínum að stundum er eins og maður sitji beinlínis á móti ungum kaffibrúsakallinum.

Róbert er sláandi líkur föður sínum. Ekki aðeins í fasi þar sem hann hefur glímt við mildari útgáfur þeirra innri djöfla sem að lokum lögðu Gísla Rúnar að velli.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég finn það alveg og það fer ekkert milli mála að ég hef fengið smjörþefinn af flestu sem var að hrjá hann. Áráttu- og þráhyggjuröskun og hitt og þetta en það fer heldur ekkert milli mála að ég er samt ekki að díla við helminginn af því sem hann var að berjast við.“
Róbert segist þannig hafa fengið ýmislegt í föðurarf, slæmt og gott, en það góða vegi miklu þyngra. „Algjörlega. Ég hef fengið mikið af guðsgjöfum frá honum og hef getað notfært mér í listum sem er æðislegt.

Það er alveg áþreifanlegt en því er heldur ekki að neita að ég hef klárlega líka fengið alls konar kvilla og erfiða hluti sem eru bara eins hjá okkur og koma fram í hegðun minni. Þegar ég ber okkur saman finn ég óneitanlega ýmsar hliðstæður,“ segir Róbert.

Angist bak við þagnarmúr

„Því miður fékk ég þennan skilning á pabba og á því af hverju hann var eins og hann var rosalega seint. Vegna þess að hann var náttúrlega bara yndislegur. Yndislegur og virkilega, ofboðslega góðhjartaður maður og vildi öllum ofboðslega vel.“

Róbert bendir einnig á að Gísli Rúnar hafi lagt sig fram um að fela raunverulega líðan sína. „Hann faldi rosa mikið hvernig honum leið. Hann faldi þessa þungu, djúpu angist sem hann gekk með í sér held ég á hverjum einasta degi.

Það er líka náttúrlega þannig að auðvitað sér fólk ekkert, nema í mesta lagi þeir nánustu, hvernig manneskjunni líður og það þarf ekkert endilega að sjá þetta. Pabbi faldi mjög lengi fyrir öllum hversu virkilega illa honum leið.

Róbert er yngsta barn leikaranna Eddu Björgvinsdóttur og Gísla Rúnars og segist hafa verið ofboðslega heppinn með foreldra sem hafi stutt hann í öllu sem hann hefur viljað gera og aldrei reynt að ýta honum í ákveðnar áttir.
Fréttablaðið/Ernir

Það er þessi veggur og engum er hleypt inn. Það að biðja í rauninni um hjálp er oft það stærsta og erfiðasta í heimi fyrir svona snillinga og svona fólk sem er í rauninni alla sína ævi búið að skilyrða sig við: Mér líður hræðilega, ég á það skilið, ég á að skammast mín og það getur enginn hjálpað mér.“

Róbert segist trúa því að svona hafi pabba hans meira eða minna alltaf liðið „þegar hann var ekki heilbrigður, ekki sjálfur í bata og að vinna prógrammið innan ákveðinna 12 spora samtaka sem hann gerði í mörg ár. Þegar hann var ekki þar þá held ég að hann hafi verið á þessum stað nánast á hverjum degi.“

Harmrænu trúðarnir

Þessi mannlýsing á Gísla Rúnari rímar ágætlega við marga þekkta grínista og leikara, eins og til dæmis Robin Williams sem þjáðist undir galsafengnu yfirborðinu og endaði með að stytta sér aldur 2014.

„Akkúrat. Jim Carrey líka og fleiri. Mér finnst þetta algjörlega vera tilfellið. Jim Carrey er búinn að vera í uppáhaldi hjá mér lengi. Bara síðan ég var barn og ég man eftir viðtali sem ég las einhvern tímann. Þar sagði hann einmitt að hann hefði allt frá því hann var barn reynt að láta öðrum líða vel með því að skemmta þeim. Af því að honum leið sjálfum svo illa og hann vildi ekki að neinn annar þyrfti að finna fyrir sáraukanum sem hann upplifði. Mér finnst þetta passa betur við pabba en nokkuð annað sem ég veit um hann.“

Besti pabbi í heimi

Lýsing sonarins á innsta kjarna föðurins er hins vegar ekki flókin. „Pabbi var ótrúlega mikið góður pabbi. Ég veit að þetta segja allir sem eiga góða pabba en hann var bara besti pabbi í heimi.

Hann var alltaf virkilega að passa upp á að maður hefði alltaf gaman og að manni liði eins og það væri hlustað á mann. Hann hlustaði mikið, ólíkt mörgum fullorðnum sem hlusta ekki á börn. Hann lét mann alveg finna það að hann hlustaði, skildi og hafði áhuga á því sem maður var að segja. Þótt maður væri bara krakki að segja einhverja vitleysu.“

Róbert segir þá feðga hafa verið mjög nána. Sérstaklega síðustu árin. „Við áttum okkur alls konar sögu. Sérstaklega frá því að ég byrjaði í neyslu og þá voru samskiptaörðugleikarnir augljóslega ekki honum að kenna,“ segir Róbert og bætir við að hann hafi þá ekki kunnað, frekar en fíklar í neyslu almennt, að eiga í eðlilegum eða heilbrigðum samskiptum.

Skilningur, ást og kærleikur

„Þannig að við stönguðumst svolítið á en ég er mjög þakklátur fyrir að hafa öðlast ákveðinn skilning fyrir honum, sem ég hafði ekki áður, og virðist hafa fengið á þessari edrúgöngu minni þegar ég byrjaði að vinna í sjálfum mér. Eins og bara að fatta af hverju hann var eins og hann var.

Þú veist, þetta voru einhverjir hlutir, ákveðin hegðun og hitt og þetta sem fór í taugarnar á mér. Bara vegna þess að ég vildi ekkert skilja þetta og hafði núll þolinmæði gagnvart þessu. Þetta var ekkert hræðilegt og svo fór þessi skilningur að koma hægt og rólega upp úr tvítugu.

Þegar ég er eitthvað í kringum 24 ára fer ég fyrst fyrir alvöru að finna einhvern veginn fullkomið æðruleysi og skilning gagnvart honum og ég er svo þakklátur fyrir það. Vegna þess að ég veit allavegana að ég get sagt að síðustu árin fékk hann stuðning frá mér. Skilning, ást og kærleik alveg þangað til hann fór.

Hvorki reiður né sár

Ég er ekki reiður út í pabba. Ég er ekki sár út í hann en mér líður mjög oft illa yfir því að hugsa um það hvað honum leið illa í alvörunni. Vegna þess að ég veit honum leið svo virkilega, óhuggulega illa.

Þú veist, við erum að tala um mann sem fann einhvern veginn fyrir tilfinningum og upplifði tilfinningar á svo dramatískan og gígantískan hátt, bara miðað við venjulegan mann. Það er óhuggulegt að hugsa til þess þegar honum leið illa. Hversu slæmt þetta var, hversu oft og mikið.

Ég vil líka taka það sérstaklega fram að þótt ég skilji pabba þá er einhvern veginn alveg skýrt að þetta er aldrei svarið. Það er svo 100% skýrt fyrir mér núna sem aðstandanda og það er svo gott að sjá skýrt að svarið er aldrei að fara bara og skilja alla eftir.“

Áleitnar spurningar

Róbert segir áleitnar og erfiðar spurningar um hvort þau hefðu getað gert eitthvað öðruvísi eða komið í veg fyrir sjálfsvígið leita óhjákvæmilega á þá sem sitja eftir með söknuðinn og sorgina.

„Auðvitað kemur það upp í hugann. Sérstaklega fyrst. Alveg allra fyrst. Þá varð það bara að þráhyggju­lúppu hjá mér. Kannski bara fullkomlega eðlilega. Oft heldur maður að það hefði kannski gert eitthvað ef maður hefði breytt einhverju einu orði. Í einhverri setningu. Sagt eitthvað öðruvísi og að það hefði kannski breytt því hvernig honum leið í tugi ára.“

Ómannlegar kröfur

Gísli Rúnar var eins og hann var. Hugmyndaríkur, frjór, ofvirkur, ofurnákvæmur, ósérhlífinn og ör og Róbert segir þannig fólk óhjákvæmilega geta verið erfitt í samskiptum.

„Heldur betur. Algjörlega og það er alveg svoleiðis. Hann var mikill, rosalega stór karakter. Ég held ég hvorki viti um né hafi komist nálægt stærri persónuleika nokkurs staðar í lífinu. Hann var bara svo mikið stór karakter.“

„Ég var búinn að vera í góðri edrúvinnu í dágóðan tíma og búinn að ná mjög langt í þessari andlegu vinnu og svo auðvitað hristir þetta allt upp.“
Fréttablaðið/Ernir

Róbert bætir við að ofan á allt annað hafi pabbi hans verið með fullkomnunaráráttu á hástigi. „Og hafi ég einhvern tímann hitt vinnualka þá var það hann. Og hann gerði einmitt sömu kröfur á fólk og hann gerði á sjálfan sig og þær kröfur voru náttúrlega óraunhæfar. Ómannlegar eiginlega. Algjörlega óraunhæfar og beinlínis óhollar og bara hættulegar.“

Róbert segir þennan þátt í fari föður síns vera eitt af því sem hann finni hjá sjálfum sér og að fullkomnunaráráttan hafi oft staðið honum fyrir þrifum og stöðvað hann í miðjum verkefnum. „Þá var ég svo gjörsamlega fastur í að eitthvað þyrfti að vera fullkomið og komst þar af leiðandi ekki lengra með það verkefni,“ segir Róbert sem hefur á þessu erfiða ári fallið og risið upp.

Fallið

„Ég gleymdi algjörlega að hugsa um það að hlúa að sjálfum mér í marga mánuði og það leiddi bara til þess að ég tók enn eina dýfuna og ofan í svartnættið. Það entist, Guði sé lof, stutt,“ segir Róbert sem byrjaði aftur í neyslu í kjölfar áfallsins.

„Ég var búinn að vera í góðri edrúvinnu í dágóðan tíma og búinn að ná mjög langt í þessari andlegu vinnu og svo auðvitað hristir þetta allt upp,“ segir Róbert sem var staðráðinn í því að láta sviplegan föðurmissinn ekki fella sig.

„Það var alveg á hreinu. Ég ætlaði svoleiðis gjörsamlega bara að sjá um þetta og helst vera Súpermann. En þú veist hvernig þetta er. Þegar maður hugsar ekkert um sjálfan sig og hlúir ekki að sér eftir svona stórt áfall þá er bara rosalega lítið hægt að gera fyrir mann. Fyrir mann sem vill ekkert gera fyrir sjálfan sig og annað hvort vill ekki eða er ekki fær um að skoða vandamálið. Það á bara við um svo margt og það á svo sannarlega við um þetta.“

Eins og öll sem glímt hafa við fíknsjúkdóma vita eru stór áföll og mikil sorg alveg hreint kjörin ástæða, eða réttlæting öllu heldur, fyrir því að byrja aftur í neyslu og Róbert endaði á því að grípa í það hála haldreipi.

Frípassi sjálfsvorkunnarinnar

„Heldur betur! Ertu að grínast? Sko, ég skal segja þér það að mánuðinn áður en ég tók þessa dýfu þá náttúrlega hugsaði ég að ég væri náttúrlega með svarta Mastercardið. Þetta sem er úr stáli eða platínu eða eitthvað. Ég er með það núna.

Ekki bara deyr pabbi minn, heldur sviptir hann sig lífi. Það er rosalegt áfall og ég lendi í því að ég finn hann. Ég fann pabba. Ég kem að honum, ef það er ekki fríspil. Bæði í fullkomlega eðlilegum skilningi og eðlilegri samkennd, að ég tali ekki um fyrir fíkil sem er að díla við fíkni­sjúkdóm; vorkunn, sjálfsvorkunn.

Bara sjálfsvorkunn algjörlega á hæsta leveli. Ég hefði getað drukkið út á þetta og notað út á þetta örugglega næstu tíu árin að lágmarki. Ef ég myndi lifa það af sem er bara ekki raunin. Ég er bara á þeim stað að ég veit 100% að ég lifi ekki af að vera þarna úti í meira en mánuð. Þá er ég kominn bara að dauðans dyrum.“

Róbert segist eiga ofboðslega góða vini og kærustu sem hafi staðið við bakið á honum í gegnum súrt og sætt. „Þau komu til mín eftir að ég var búinn að vera týndur og bara í einhverju mjög alvarlega óhuggulegu ástandi í smá tíma. Þau björguðu mér bara. Komu mér aftur inn á Vog og ég fór aftur í meðferð og kláraði það. Ég komst, Guði sé lof, aftur inn, sem er því miður raunin fyrir allt of fáa. Það eru rosa margir sem fara út og komast aldrei aftur inn. Eða bara komast aldrei inn. Punktur.“

Sáluhjálp

Róbert heldur áfram og leggur þunga áherslu á að það sé hjálp í boði. Bæði fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum og aðstandendur þeirra sem gera hugsanirnar að veruleika. „Það fer einhvern veginn ekki mikið fyrir henni en hún er í boði.“

Róbert segist sjálfur hafa fengið ómetanlega aðstoð hjá Píeta samtökunum og Sorgarmiðstöðinni. „Það hjálpaði mér ofboðslega mikið en ég held að ég hefði alls ekki leitað þangað að eigin frumkvæði. Ég var bara mjög heppinn að aðrir í fjölskyldunni, mamma og systir mín, höfðu vit á að sækja beint í einhverja hjálp. Það er bara oft svo erfitt að sækja sér hjálp. Sumir eiga oft nógu erfitt bara með að fara fram úr rúminu, hvað þá að fara að sækja sér einhverja andlega eða geðhjálp.“

Róbert fann einnig, eins og áður segir, sáluhjálp í laginu sem hann gaf út á fimmtudaginn. „Fyrst kom smá texti til mín og laglína sem ég tók upp og fullkláraði svo með aðstoð og snilligáfu Bjarka Ómarssonar, Bomarz, sem spilar á trommur, gítar og hljómborð. Tekur upp og hljóðblandar.

Engir stælar

Ég samdi textann og syng en hann gaf mér vinnu sína og hæfileika og gerði lagið sem ég er mjög ánægður með,“ segir Róbert um Gat ekki meira sem er aðgengilegt á Spotify undir listamannsnafninu Royal Gíslason.

„Þetta lag er svolítið sérstakt á þann hátt að ég er ekki með neina stæla. Þetta er eins tært og einlægt og ég hef nokkurn tímann þorað að gefa út eða gefa frá mér, eða í rauninni bara sýna nokkurri manneskju og ég er að gera það fyrir pabba.

Þetta er alveg sérstakt verkefni og öðruvísi en ég hef verið að gera. Þetta er bara alveg sér. Bara einstakt fyrir pabba. Þetta er til hans. Þetta er fyrir hann. Þetta er frá honum,“ segir Róbert.

„Og ég vona virkilega, innilega að þetta geti mögulega hjálpað einhverjum af því ég veit að það er það sem hann hefði viljað. Alveg 150% og ég veit að hann yrði þakklátur fyrir það. Þess vegna er ég að gera þetta. Ég vil einfaldlega bara fá skilning fyrir pabba minn. Ég vil það.“