Lögreglan á Íslandi haldlagði 14.095 stykki af lyfjum sem flokkuð eru sem , Oxynorm eða Dispersa árið 2021 en það er nærri því fimmföldun á því magni sem haldlagt var árið á undan.

Þetta sýna tölur sem Fréttablaðið aflaði hjá Ríkislögreglustjóra.

Mikill samdráttur varð í magni haldlagðra efna árið 2020 en það útskýrist aðallega af minni flugumferð á tímum Covid-19 faraldursins.

„Þetta er að mestu leyti áhrif frá faraldrinum en árin á undan voru einnig haldlögð efni í stórum fíkniefnamálum. En aðallega eru þetta áhrif frá faraldrinum,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri Ríkislögreglustjóra.

Oxy tölfræði.JPG

Þrátt fyrir þetta jókst hlutfall sjúklinga sem nota ópíóíða á sjúkrahúsinu Vogi á þessum árum.

„Við sjáum ekki minnkun í ópíóíðafíkn á þessum árum,“ segir Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, aðstoðarmaður yfirlæknis á Vogi, um það hvort SÁÁ hafi fundið fyrir líkum áhrifum frá faraldrinum

„Það er aukning milli ára 2019 til 2020. Þá er aukning í hlutfalli sjúklinga sem nota ópíóíða og sú aukning heldur áfram til 2021.“

Þannig hafi minnkun í haldlagningu og mögulegri dreifingu oxykódon-lyfja í faraldrinum ekki haft töluleg áhrif á fyrirspurnir um innlagnir.

„Við erum með færri innlagnir í Covid þar sem við urðum að gæta að sóttvarnareglum. Við gátum ekki fyllt spítalann vegna þess að passa þurfti að fólk væri skimað áður en það kom inn og við þurftum að passa að hægt væri að viðhalda réttri fjarlægð. En vissulega varð ákveðinn samdráttur í innlögnum heilt yfir þrátt fyrir að hlutfall ópíóíðasjúklinga fari hækkandi,“ segir Ragnheiður.

Í kringum 20 prósenta samdráttur varð í heildarinnlögnum á tímum Covid.

Lyfin sem um ræðir eru sterk ópíóíðalyf sem yfirleitt eru notuð við miklum eða mjög miklum verkjum. Mikil aukning hefur orðið í neyslu á ópíóíðum á Íslandi og annars staðar í heiminum.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er um gríðarlega aukningu í haldlagningu oxykódon-efna frá því mælingar hófust en rúmleg sjöföldun varð í haldlagningu á slíkum efnum frá árunum 2018 til 2019.

Mikill samdráttur varð í haldlagningu lyfja árið 2020 en þegar faraldrinum lauk hækkuðu tölurnar aftur sem bendir til þess að innflutningur efnanna hafi tekið við sér um leið og flughafnir opnuðu á ný.

Í öðrum gögnum sem Fréttablaðið fékk frá Ríkislögreglustjóra kemur fram að 85 prósent þeirra efna sem haldlögð voru árið 2021 hafi verið gerð upptæk á Keflavíkurflugvelli.

Þá voru 10 prósent haldlögð á höfuðborgarsvæðinu en 5 prósent á landsbyggðinni.

Þetta hlutfall var um margt svipað önnur ár sem gefur til kynna að langmest af lyfjunum séu gerð upptæk í flugstöðinni.

Gunnar Örn bendir þó á að ákveðinn fyrirvara þurfi að hafa á tölunum þar sem lyf sem tekin eru af fólki kunni að vera ómerkt eða án allra umbúða.

Þannig geti efnin vera skráð ranglega í vissum tilvikum.

Samt sem áður gefi hin mikla aukning sem orðið hefur í haldlagningu efna góða hugmynd um magn og dreifingu á oxykódon-efnum