Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir upplýsingar lögreglu benda eindregið til þess að pólsku fimmmenningarnir sem komu til landsins með samanlagt rúmlega fjögur þúsund töflur af OxiContin séu farnir af landi brott.

Greint var frá því í morgun að fimm karlmenn hafi hlotið dóm vegna stórfellds innflutnings á OxyContin til landsins í mars og apríl síðastliðnum.

Dómur mannanna var birtur í Lögbirtingablaðinu í morgun þar sem ekki hafði tekist að hafa uppi á þeim.

„Komi þeir aftur til landsins á næstu 5 árum bíður þeirra birtur dómur og hægt er að fullnusta dæmda refsingu á grundvelli viðkomandi dóms. Ólíklegt verður að teljast að þeir sæki okkur heim í náinni framtíð,“ segir Úlfar í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Mennirnir komu til landsins frá Póllandi í mars og apríl síðastliðnum og voru stoppaðir af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Þeir reyndust allir vera með talsvert magn af OxyContin töflum sem þeir höfðu falið ýmist í nærbuxum sínum, kaffibaunapokum, sælgætispoka og raksápubrúsa.

Úlfar segir, aðspurður um verklag lögreglu í málum sem þessu, sakborninga jafnan handtekna og hald lagt á þau efni sem viðkomandi hafa í fórum sínum.

„Rannsókn mála felst svo einkum í því að töflurnar eru sendar til rannsóknar, þ.e. efnagreiningar og talningar, auk þess sem öll möguleg atriði eru rannsökuð sem varða aðdraganda og skipulagningu hvers innflutnings,“ segir Úlfar jafnframt.

Það fari svo eftir eðli og umfangi hvers máls fyrir sig til hvaða þvingunarúrræða sé gripið til gagnvart sakborningum. Þau þvingunarúrræði sem til álita komi séu gæsluvarðhald og farbann á grundvelli laga um meðferð sakamála sem og tilkynningarskyldu á grundvelli laga um útlendinga.