Björgunarsveitir frá Akureyri og Vamahlíð sinntu útkalli á Öxnafalsheiði fyrr í dag, þar sem tveir bílar festust í snjó á leiði sinni frá Reykjavík til Akureyrar.

Samkvæmt Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingarfulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar voru sendi bílar úr báðum áttum við heiðina, þar sem ekki var vitað um nákvæma staðsetningu bílanna, né hvernig færðin væri.

Rétt um klukkutíma eftir að útkall barst kom björgunarsveitarfólk að bílunum efst í Bakkaselsbrekku og náði að losa bílana, þá var ökumönnum boðin fylgd austur yfir heiðina.

Báðir bílar gátu haldið för sinni áfram og voru komnir niður af heiðinni rétt um hálf fimm leitið. Öxnadalsheiði hefur verið lokuð síðan klukkan tíu í gærkvöld.

Mynd frá vettvangi.
Mynd/Aðsend
Mynd frá vettvangi.
Mynd/Aðsend