Meirihlutaviðræður Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík ganga vel að sögn Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar.

Þriggja daga námskeið sem allir borgarfulltrúar sitja hefur þó tafið viðræðurnar um því sem nemur að sögn Þórdísar Lóu en síðasti dagur námskeiðsins er í dag.

Þórdís Lóa segir stefnt að því að reyna klára viðræðurnar fyrir fyrsta borgarstjórnarfund sem fer fram á þriðjudaginn í næstu viku þann 7. júní.

„Við höfum þá tímalínu fyrir framan okkur en þetta eru viðræður og þær taka þann tíma sem þarf,“ segir Þórdís Lóa sem er bjartsýn á að viðræðurnar klárist fyrir fundinn.

Enn hafi ekki verið rætt um skiptingu í embætti né hver muni taka við embætti borgarstjóra.

Þórdís Lóa segir það ekki verða rætt fyrr en alveg í lokin, helgin muni nýtast í áframhaldandi viðræður.

Aðspurð hvort enn séu einhver ágreiningsmál í viðræðum flokkanna segir Þórdís Lóa viðræðurnar hafa gengið mjög vel.

„Þetta eru fjórir ólíkir flokkar með ákveðin málefnalegan þéttleika í ákveðnum stórum málum. Síðan höfum við talað út frá stefnu hvers og eins flokks í hvaða málaflokki fyrir sig. Þess vegna tekur þetta svona langan tíma því það þarf að ræða öll mál til hlítar og finna sameiginlegar lausnir,“ segir Þórdís Lóa en viðræður flokkanna hófust fyrir níu dögum.