Borgara­þjónusta utan­ríkis­ráðu­neytisins hefur vakið at­hygli á því við Ís­lendinga sem staddir eru er­lendis og hyggja á heim­ferð, að nýta sér ferðir Icelandair frá London og Boston næstu daga, auk flug­ferða frá Stokk­hólmi á morgun, þriðju­dag, og frá Ali­cante á Spáni á mið­viku­dag. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Utan­ríkis­ráðu­neytinu.

Þessar ferðir eru sam­kvæmt sam­komu­lagi sem ís­lensk stjórn­völd gerðu ný­lega við Icelandair, og gildir að svo stöddu til 15. apríl. „Flug­sam­göngur munu ekki falla niður með öllu eftir 15. apríl, en enn er ekki ljóst hvernig þeim verður háttað,“ segir í bréfi borgara­þjónustunnar til Ís­lendinga er­lendis.

Í bréfinu, sem borgara­þjónustan hefur sent til Ís­lendinga sem hafa skráð sig í gagna­grunn þjónustunnar og eru sam­kvæmt henni staddir er­lendis, kemur fram að önnur flug en þau sem Icelandair býður upp á til Ís­lands gætu fallið niður, þótt þau virðist enn á á­ætlun sam­kvæmt bókunar­síðum flug­fé­laganna. Sama á við um önnur milli­landa­flug.

„Hafi flug í­trekað verið felld niður er það sterk vís­bending um að svo verði einnig með flug sem er á á­ætlun næstu daga. Á­stæðan er sú að mörg flug­fé­lög hafa ekki getað fellt niður flug úr bókunar­kerfum sínum nema með eins til tveggja sólar­hringa fyrir­vara.“ Í þessu sam­hengi má nefna að ört hefur dregið úr fram­boði á á­ætlunar­flugi og mörg flug­fé­lög hafa þegar lagt flug­flota sínum.

Mega búast við að sæta endurkomubanni

Þá vekur borgara­þjónustan einnig at­hygli á því við Ís­lendinga sem staddir eru í Banda­ríkjunum að þeir sem hafa ekki lög­mæta á­stæðu til að fram­lengja dvöl sína í Banda­ríkjunum um­fram það sem ESTA ferða­heimild þeirra segir til um, fái ekki sjálf­krafa fram­lengingu á sinni ESTA á­ritun. Þeir sem dvelji þar fram yfir gildis­tíma á­ritunarinnar megi búast við að sæta endur­komu­banni til Banda­ríkjanna. „Ein­göngu þeir sem hafa lög­mæta á­stæðu til að hafa ekki flýtt heim­för, s.s. sjúkra­hús­vist eða aðrar slíkar ó­fyrir­sjáan­legar á­stæður, geta fengið fram­lengingu,“ segir í orð­sendingu borgara­þjónustunnar.