Norðmenn eru margir hverjir uggandi yfir því að fá ekki að ferðast upp í sumarbústaði sína um páskana. Í síðustu viku bannaði ríkisstjórnin fólki að dvelja utan sveitarfélags þar sem það er með lögheimili. Er það gert til að verja þá heilbrigðisþjónustu sem er í minni sveitarfélögum með stóra frístundabyggð.

Samkvæmt Hagstofu Noregs eru um 438 þúsund bústaðir, skálar og önnur orlofshús í Noregi. Þeir sem eru gripnir við að dvelja þar utan síns sveitarfélags eiga yfir höfði sér sekt upp á 15 þúsund krónur norskar, eða um 180 þúsund krónur íslenskar.

Hátt í þrjátíu þúsund Norðmenn eru í sóttkví, hefur þeim sem liggja inni á spítala fjölgað hratt. Átta hafa látið lífið.

Fjöldi þeirra sem hafa óskað eftir lögheimilisbreytingu hefur margfaldast síðustu daga. Elin Imsland, yfirmaður skráninga á skattstofu Noregs, segir í samtali við NRK að þeir sem sæki um verði fyrir vonbrigðum þar sem búið er að setja allar slíkar umsóknir á bið.

Sveitarfélög með stóra frístundabyggð taka nú við fjölmörgum beiðnum frá bústaðaeigendum sem vilja að eftirlit verði hert. Bannið sé heimboð til þjófa. Jon Rolf Næs, bæjarstjóri í Bykle þar sem eru um 2.800 sumarhús, segir við NRK að líkt og í fleiri sveitarfélögum hafi verið leitað til öryggisfyrirtækis á svæðinu til að vakta byggðina. „Það er ekki bara öryggi fyrir sumarhúsaeigendur, heldur einnig fyrir okkur að vita hvar allir eru,“ segir Næs.