Nær allir sitjandi borgarfulltrúar í Reykjavík munu gefa kost á sér til áframhaldandi setu í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor, eða hafa að minnsta kosti ekki gefið það út að þeir sækist ekki eftir endurkjöri. Dagur B. Eggertsson gefur ekkert upp. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Alexandra Briem, Aron Leví Beck Rúnarsson, Björn Gíslason, Ellen Calmon, Eyþór Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Pawel Bartoszek, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson hafa öll gefið það út að þau muni sækjast eftir endurkjöri.
Þá sögðust Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sabine Leskopf ekki vera búnar að gera upp hug sinn.
Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson gaf ekki skýrt svar um það hvað hann hyggst gera í vor. Hann er enn óákveðinn hvort hann gefi kost á sér til áframhaldandi setu en gerir ráð fyrir að gefa út svar á komandi vikum.
Svör bárust ekki frá öðrum borgarfulltrúum.
Dagur hefur verið borgarstjóri í Reykjavík frá árinu 2014. Áður hafði hann gegnt embætti borgarstjóra um stutta hríð veturinn 2007-2008 og var formaður borgarráðs frá 2010-2014.