Þau sem hafa fengið Covid-19 og tvo skammta af bóluefni þurfa ekki að fara í örvunarskammt, samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH).

„Við teljum upp að þremur. Þannig að ef þú hefur fengið tvo skammta af bóluefni og Covid þá ertu komin upp í þrjá. Við leggjum það að jöfnu að sýking sé eins og einn skammtur,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH.

Hún segir jafnframt að þau sem fengið hafi einn skammt af bóluefni, svo sem bóluefni Janssen, og sýkst af Covid ættu að fá örvunarskammt sex mánuðum eftir sýkingu eða bólusetningu.

Byggt á því hvort sýking átti sér stað fyrst eða bólusetning. Þessi hópur verði boðaður í örvunarskammt.

Ragnheiður segir að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um það hvort bólusett börn skuli fá örvunarskammt.

„Við gerum ráð fyrir því en það er þá ekki fyrr en eftir áramót þar sem bólusetning tólf til fimmtán ára hófst ekki fyrr en í ágúst.“

Aðspurð segir Ragnheiður að þau börn sem fædd eru 2009 en hafi ekki verið orðin tólf ára þegar þeirra árgangur var bólusettur hafi skilað sér vel í bólusetningu. Mörg þeirra hafi jafnvel komið spennt á afmælisdaginn.

„Það er alltaf opið hús hérna á Suðurlandsbrautinni fyrir þau sem eiga eftir að fá bólusetningu. Nema þá daga sem við erum að bólusetja í Laugardalshöllinni,“ segir Ragnheiður og vísar til þess að á tímabilinu 15. nóvember til 8. desember verður bólusett í Laugardalshöll mánudaga til miðvikudaga. Fimmtudaga og föstudaga er opið fyrir bólusetningar á Suðurlandsbraut