„Alls óvíst er hvort og þá hvenær skipið kemst aftur í rekstur,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, um viðgerðir á varðskipinu Tý.

Í janúar hafi skrúfubúnaður Týs bilað svo að önnur aðalvéla skipsins er ónothæf.

„Við nánari skoðun við slipptöku kom í ljós að vél sem stýrir skrúfubúnaði skipsins er ónýt,“ segir Ásgeir.

Varðskipið Týr var smíðað árið 1975 og sökum aldurs eru ekki til varahlutir í skrúfubúnaðinn.

„Við slipptökuna kom jafnframt í ljós að einn af tönkum skipsins er ónýtur sökum tæringar. Ljóst er að um afar kostnaðarsama viðgerð er að ræða en verið er að meta kostnaðinn. Alls óvíst er hvort og þá hvenær skipið kemst aftur í rekstur. “

Mynd/landhelgisgæslan