Í dag eru átta vikur fram að alþingiskosningum, sem áætlað er að verði haldnar þann 25. september. Samkvæmt kosningalögum væri því hægt að hefja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í dag ef búið væri að tilkynna kjördag með formlegum hætti.

Kjördagurinn hefur legið fyrir frá því í júlí í fyrra en þar sem þing hefur hvorki verið rofið né kjördagur formlega auglýstur getur utankjörfundaratkvæðagreiðsla ekki hafist um sinn. Í ræðum sínum á þingi hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagst ætla að rjúfa þing í fyrsta lagi þann 12. ágúst til þess að kosningarnar geti farið fram á tilsettum tíma en nákvæm þinglokadagsetning liggur ekki fyrir.

Í vor samþykkti Alþingi bráðabirgðalög um framkvæmd kosninganna 2021 sem meðal annars innihalda sérreglur fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu þeirra sem eru í sóttkví eða einangrun vegna Covid-19. Sýslumönnum er gert að skipuleggja og auglýsa atkvæðagreiðslu fyrir þá sem ekki geta greitt atkvæði á kjördag eða með reglulegri utankjörfundaratkvæðagreiðslu í samráði við sóttvarnayfirvöld. Ekki er þó heimilt að hefja þá atkvæðagreiðslu fyrr en fimm dögum fyrir kjördag, það er mánudaginn 20. september.

„Á sama hátt og í fyrrasumar þegar kosið var til forseta mun framkvæmd kosninga taka mið af nauðsynlegum sóttvörnum,“ kom fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. „Engar breytingar hafa verið gerðar á framkvæmd kosninga utan kjörfundar erlendis.“