Samkvæmt uppfærðri dreifingaráætlun fá Pfizer fær Ísland heldur færri skammta en gert var ráð fyrir á næstu vikum. Ástæðan fyrir því er minnkandi framleiðslugeta Pfizer en unnið er að því að endurskipuleggja framleiðslugetuna.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist gera ráð fyrir því að það verði bætt upp í mars, heildarmagn í marslok verði því óbreytt frá því sem áður var áætlað eða um fimmtíu þúsund skammtar. Dreifingaráætlun bóluefnisins eftir marslok liggur hins vegar ekki fyrir að svo stöddu.

Ekki ljóst hvenær næstu forgangshópar verða bólusettir

Mikil umræða hefur verið undanfarið um forgangsröðun í í bólusetningar og þær breytingar sem þurft hefur að gera á forgangsröðun í ljósi minna magns af bóluefni en upphaflega var gert ráð fyrir.

Í forgangi eru núna þeir einstaklingar sem eru í mestri áhættu að smitast af COVID- 19 og einnig þeir sem eru eldri en sjötugir en þeir eru líklegastir til að fá alvarlega sýkingu. Þessir forgangshópar samanstanda af um fjörutíu þúsund einstaklingum. Ekki er hægt að gefa nákvæma tímasetningu um hvenær aðrir forgangshópar verði bólusettir vegna þess að ekki er vitað hvenær eða hversu mikið af bóluefni komi til landsins.

Þar sem við verðum ekki búin að fá bóluefni fyrir nema um þrjátíu þúsund einstaklinga í febrúarlok samkvæmt fyrirliggjandi dreifingaráætlun verður líklega ekki hægt að byrja á næsta forgangshópi fyrr en í fyrsta lagi í marsmánuði. Sá hópur samanstendur af einstaklingum yngri en sjötíu ára með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma," segir Þórólfur.

Hann biðlar því til fólks að vera ekki að senda tölvupósta sem ætlað er að koma því framar í forgangsröðun bólusetninga.

Það mun ekki leiða til neins nema að valda okkur miklu vinnuálagi við að svara. Ef við hins vegar mundum verða við öllum þessum beiðnum þá mundi það leiða til þess að okkar viðkvæmasta fólk mundi færast neðar í forgangsröðunina. Við reynum að útdeila bóluefnum eins réttlát og hægt er," segir Þórólfur að lokum.