Dráttar­báturinn Fönix er kominn að far­þega­ferjunni Baldri, en hún varð vélar­vana um tíu sjó­mílur frá Stykkis­hólmi upp úr há­degi í gær. Tuttugu far­þegar eru um borð auk átta manna á­hafnar.

Fönix dregur ferjuna til hafnar í Stykkis­hólm þegar veður leyfir en að sögn Sæ­ferða sem gera ferjuna út er ó­víst hve­nær það verði, veðrið sé enn þá mjög slæmt.

Vél ferjunnar bilaði um klukkan tvö í gær þar sem skipið var á siglingu innar­lega á Breiða­firði. Baldur varpaði akkerum fljót­lega eftir að bilunarinnar varð vart.

Rann­sókna­skipið Árni Frið­riks­son var við Grundar­fjörð og fór þegar til að­stoðar og varð­skipið Þór var þegar sent af stað, bæði skipin eru enn á staðnum. Þá var Björgin, björgunar­skip Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar jafn­framt til halds og trausts á svæðinu. Þyrlu­sveit Land­helgis­gæslunnar var við­bragðs­stöðu á Stykkis­hólmi í gær og bauðst til að ferja far­þega Baldurs í land undir kvöld en allir kusa að halda kyrru fyrir í ferjunni þar sem þeir voru með bíla og varning um borð sem þeir vildu ekki skilja við.

Frétta­blaðið náði tali af Jóhönnu Bjarn­­dísi Arapin­owicz, far­þega um borð í Baldri, í gær­kvöld. Að sögn Jóhönnu fór vel um far­þeganna og hafði kokkurinn um borð boðið öllum upp á kvöld­mat.

Hún var þó von­góð í gærkvöldi að Fönix kæmi í nótt til að draga Baldur í höfn.