Ekki er vitað hve lengi röskun á tíðahring getur varað eftir bólusetningu við Covid-19 og hingað til hefur það lítið verið rannsakað. Nokkrar konur hafa sagt frá því að hafa verið á blæðingum svo vikum skiptir.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir ekki víst af hverju röskunin geti stafað en að sennilega sé hún tengd bóluefninu.„Bólusetning hefur áhrif á ónæmiskerfið og ónæmiskerfið hefur áhrif á storkukerfið og þar fram eftir götunum. Það er mjög erfitt að segja til um hvað þetta gæti verið,“ segir hún.

Kamilla segir einhverja erlenda aðila vera að íhuga nánari skoðun en að enn sem komið er séu engar rannsóknir komnar fram sem skili niðurstöðum um þetta.

Um miðjan júlí fékk vefurinn mbl.is skriflegt svar frá Lyfjastofnun um að 250 tilkynningar hefðu borist um breytingar á tíðahring. Lyfjastofnun staðfestir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að 270 tilkynningar hafi borist hingað til.

Í kjölfar fréttar mbl.is opnuðu margar konur sig í Facebook-hópnum Góða systir um upplifun sína af tíðaröskunum eftir bólusetningu. Einhverjar sögðust til dæmis ekki hafa farið á blæðingar í einhverja mánuði og aðrar töluðu um að byrja aftur á blæðingum eftir breytingaskeið.

Konan sem bryddaði upp á umræðunni í hópnum, Rebekka Ósk Sváfnisdóttir, fór í viðtal hjá Vísi um miðjan júlí og hafði þá verið á blæðingum í 44 daga.

Hún sagði í viðtalinu að hún hefði ekki getað fengið hjálp frá Heilsugæslunni og að löng bið hefði verið eftir tíma hjá kvensjúkdómalækni. Hún sæti eftir án svara.

Rebekka stofnaði fljótlega eftir það Facebook-hóp fyrir konur sem hafa upplifað tíðahringsbreytingar í kjölfar bólusetningar og á einni viku söfnuðust í hann tæpar fimm hundruð konur.

Fréttin hefur verið uppfærð