Ekki hefur verið ákveðið hvar talning fer fram í Suðurkjördæmi, ef þess þarf. Yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis fundar í hádeginu í dag og með landskjörstjórn klukkan 13.30 og farið verður yfir það á fundunum hvort að talið verði aftur í kjördæminu. Fjórir flokkar hafa farið fram á endurtalningu í kjördæminu.
Á fundinum verður ákveðið hvort að talið verður og hvar það verður gert, ef þess er þörf. Um helgina var talið í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi en þar er skólahald núna og því ólíklegt að hægt verði að telja þar. Að sögn Þóris hefur annar talningarstaður ekki verið ákveðinn.
Atkvæðin sem greidd voru í Suðurkjördæmi eru á öruggum stað að sögn formanns yfirkjörstjórnar, Þóris Haraldssonar. Hann vildi ekki gefa upp staðsetningu þeirra og sagði það hluta af því að halda þeim öruggum.